Landsvirkjun og Norðurál hafa komist að samkomulagi um þriggja ára framlengingu á raforkusölusamningi sem er í gildi fyrirtækjanna á milli, samkvæmt tilkynningu í gær. Nýr samningur tekur gildi 1. janúar 2023.

Norðurál hyggst í framhaldi af framlengingu samningsins ráðast í byggingu steypuskála við álverið á Grundartanga, sem mun framleiða svokallaða álbolta. Er þar um að ræða fjárfestingu upp á um 15 milljarða króna.

Framkvæmdir verða fyrst og fremst á árinu 2024, en þær munu skapa um það bil 100 tímabundin störf. Til framtíðar munu skapast um 40 störf í steypuskála Norðuráls á Grundartanga.

Tveir raforkusamningar eru í gildi milli Landsvirkjunar og Norðuráls. Sá fyrri og stærri var upphaflega gerður árið 1997 og er upp á 161 megavatt. Árið 2016 var samið um framlengingu samningsins til 2023.

Þær breytingar á samningum tóku gildi í nóvember 2019, en þær sneru að raforkuverði og fólust í því að tenging raforkuverðs við álverð var afnumin. Raforkuverðið var í stað þess tengt verði á Nord Pool, raforkumarkaði Norðurlandanna.

Nýja framlengingin verður hins vegar aftengd Nord Pool markaðnum, enda hafa verðsveiflur á þeim markaði verið töluvert miklar á undanförnum árum og töluvert meiri en á álmarkaði. Einnig mun selt magn aukast og verða 182 megavött, í stað 161 megavatts.

Nýr samningur felur í sér fast verð sem hækkar þó örlítið á ári hverju.Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað hratt á undanförnum misserum. Álverð náði einni af sínum dýpstu lægðum í apríl á síðasta ári og hjó nærri 1.400 Bandaríkjadölum á tonnið.

Verðið hefur hins vegar hækkað hratt og stóð í um 2.500 Bandaríkjadölum á tonnið í gær. Hækkun frá því í apríl í fyrra er því tæplega 80 prósent.Verð á svokölluðum álboltum hefur hins vegar hækkað meira.

Í mars á þessu ári seldust álboltar á Evrópumarkaði á um það bil 300 Bandaríkjadölum yfir áltonninu. Það álag hefur hins vegar meira en þrefaldast síðan þá og stendur í um 1.000 Bandaríkjadölum.