Stjórnendur og hluthafar sem fara með ráðandi eignarhlut í Skeljungi skoða nú að gera breytingar á samþykktum félagsins, sem rekur meðal annars yfir 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar á Íslandi, þannig að kveðið sé á um að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi.

Stjórnarformaður Skeljungs, Jón Ásgeir Jóhannesson, fundaði með lífeyrissjóðum sem eru í hópi stærstu hluthafa félagsins í síðustu viku þar sem hann kynnti fyrir þeim slíkar hugmyndir, samkvæmt öruggum heimildum Markaðarins.

Gangi þau áform eftir, sem munu þá krefjast samþykkis hluthafa sem ráða að lágmarki yfir 66,7 prósenta hlutafjár í félaginu, er jafnframt stefnt að því að starfrækja slíkt fjárfestingafélag sem yrði áfram skráð á hlutabréfamarkað í Kauphöllinni.

Félagið Strengur, sem hjónin Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir og Sigurður Bollason fjárfestir fara meðal annars fyrir, hefur verið stærsti hluthafi Skeljungs frá því í byrjun þessa árs með rúmlega 50 prósenta hlut. Forsvarsmenn Strengs, ásamt stjórnendum Skeljungs, hafa á undanförnum mánuðum og misserum lýst því ítrekað yfir að í ljósi orkuskiptanna ætli félagið sér að draga úr vægi hefðbundinnar sölu eldsneytis í starfsemi sinni og fækka bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar Strengur gerði yfirtökutilboð í Skeljung í nóvember á liðnu ári boðaði félagið miklar breytingar á rekstrinum og vísaði þá meðal annars til þess að ekki væri hægt að reiða sig á tekjur af bensínsölu á neytendamarkaði til lengri tíma litið. Þannig yrði stefnt að því að selja ýmsar eignir á borð við lóðir, fasteignir og rekstrareiningar auk þess sem stjórnendur Strengs, sem eru jafnframt stærstu hluthafarnir í fasteignaþróunarfélaginu Kaldalóni sem er skráð á First-North markaðinn, lýstu þá yfir vilja til að skrá Skeljung af hlutabréfamarkaði.

Nú er hins vegar talið ólíklegt að slík áform um afskráningu verði að veruleika samhliða því að hugmyndir eru uppi um að umbreyta starfseminni í átt að því að vera í reynd fjárfestingafélag.

Skeljungur vinnur nú að því að ganga frá sölu á olíufélaginu P/F Magn í Færeyjum en á sama tíma hefur félagið komið að ýmsum fjárfestingum ótengdum eldneytissölu, meðal annars kaupum á öllu hlutafé í apótekskeðjunni Lyfjavali fyrr í sumar.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs.
Frettablaðið / Sigtryggur Ari

Skeljungur rekur einnig dagvöruverslanir undir merkjum EXTRA hér á landi, fer með fjórðungshlut í Wedo, sem á og rekur vefverslanir á borð við Heimkaup.is, auk þess að hafa fjárfest í Brauði & Co og Gló.

Þá var greint frá því fyrr á árinu að stjórn Skeljungs hefði ákveðið að stofna sérstakt félag utan um olíubirgðastöð þess við Örfirisey, einkum í þeim tilgangi að „skerpa línur í rekstri félagsins á Íslandi“, eins og það var orðað í tilkynningu.

Á meðal þeirra sem komu að skuldsettri yfirtöku Skeljungs undir lok síðasta árs, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, var vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var áður stærsti hluthafi Arion banka um nokkurt skeið. Auk Taconic var yfirtakan fjármögnuð með aðkomu Kviku og TM.

Stærstur hluti fjármögnunarinnar var hins vegar frá Arion banka og Íslandsbanka, sem voru umsjónaraðilar með yfirtökunni.

Strengur, sem átti þá um 36 prósenta hlut, setti fram tilboð í alla hluti Skeljungs í nóvember í fyrra á genginu 8,315 krónur á hlut sem verðmat það á 16 milljarða. Fáir hluthafar Skeljungs samþykktu yfirtökutilboðið, eða aðeins eigendur 2,56 prósenta hlutafjár, en í kjölfarið bætti Strengur við sig hlutum með kaupum á markaði – á gengi yfir 10 krónur á hlut – og varð meirihlutaeigandi með rúmlega 50 prósenta hlut í byrjun janúar. Markaðsvirði Skeljungs er í dag 21 milljarður.

Viðskiptin við yfirtökuna, sem af þeim sem til þekkja eru sögð hafa verið einstaklega flókin í framkvæmd, voru fjármögnuð með veðlánum frá bönkum, víkjandi lánum, brúarlánum auk eiginfjárframlags.

Frá þeim tíma hefur eignarhlutur Strengs í Skeljungi numið rétt yfir 50 prósentum. Í síðustu viku seldi lífeyrissjóðurinn Festa allan 5 prósenta hlut sinn í félaginu á genginu 11 krónur á hlut en ekki hefur enn verið opinberað hver keypti hlutinn af sjóðnum.