Rekstri skyndibitakeðjunnar Quiznos, sem er að finna á tólf Olís stöðvum víðs vegar um landið verður hætt á næstu dögum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Quiznos er í eigu Olíuverzlun Íslands sem tók við sérleyfi vörumerkisins árið 2007 og opnaði fyrsta staðinn á þjónustustöð Olís í Norðlingaholti við Rauðavatn.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir í samtali við Viðskiptablaðið að tekin hafi verið ákvörðun um að loka stöðunum vegna erfiðleika í rekstri, kórónuveirufaraldurinn hafi haft mikil áhrif á rekstur staðanna.

Nýr staður undir nafninu ReDi Deli verður opnaður í staðinn fyrir Quiznos á þjónustustöðvum Olís, en vörumerkið er í eigu Olís. „Það er einfaldara í framkvæmd að reka eigið vörumerki, auk þess sem það er hagkvæmara enda fylgir „Franchise" vörumerkjum á borð við Quiznos kostnaður sem keðjan tekur til sín, segir Jón Ólafur. Quiznos bátarnir verða seldir á tilboðsverði næstu daga á meðan birgðir endast.

Quiznos er bandarískt vörumerki sem opnaði fyrsta staðinn árið 1981, í dag eru um 750 Quiznos staðir reknir víð og dreif um heiminn.