Pyngjan er hlaðvarp sem fjallar um ársreikninga fyrirtækja og hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu. Þættirnir koma út tvisvar í viku en í öðrum þættinum eru ársreikningar greindir og í hinum fara þáttastjórnendur yfir viðskiptafréttir á léttu nótunum. Þættirnir eru í umsjón Arnars Þórs Ólafssonar og Ingva Þórs Georgssonar.

Í nýjasta þættinum var fjallað um fyrirtækið Iðnmark en það framleiðir vörurnar stjörnupopp og stjörnusnakk. Félagið var stofnað 1988 af hjónunum Dagbjarti Björnssyni og Eyrún Sigurjónsdóttur og eiga þau 30 prósent hlut hvort í gegnum eignarhaldsfélag sitt Vesturás ehf. Jafnframt var farið yfir sögu fyrirtækisins sem er að sögn þáttastjórnenda nátengd sögu poppsins.

Þáttastjórnendur voru sammála um ekkert fyrirtæki hafi komið þeim jafnmikið á óvart frá því að þeir byrjuðu með Pyngjuna og þetta væri fallegasti rekstur sem þeir hefðu séð.

„Þetta er peningaprentvél. Það er engum blöðum um það að fletta,“ komst Arnar Þór, annar þáttastjórnenda að orði.

Heildartekjur félagsins árið 2020 námu 441 milljón og jókst salan um 14,4 prósent milli áranna 2019 og 2020. Þar af voru 10,7 milljónir í leigutekjur af fasteignum félagsins.

Hagnaður félagsins var 106 milljónir og hagnaðarhlutfallið 24,4 prósent.

EBITDA félagsins nam 131 milljón króna sem gerir 30 prósent EBITDA framlegð. Samanlögð EBITDA rekstaráranna 2015-2020 var um 743 milljónir króna.

Í lok þáttar bar Ingvi Þór, annar þáttastjórnenda, rekstur Iðnmarks saman við rekstur Snakk-kompanísins sem framleiðir og selur ostasnakkið Lava Cheese og fór yfir sögu fyrirtækisins.

Hægt er að nálgast þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum og hér fyrir neðan: