Pyngjan, nýtt hlaðvarp um fjármál, hefur hafið göngu sína. Það er í umsjón Arnars Þórs Ólafssonar og Ingva Þórs Georgssonar. Þremur þáttum hefur verið hleypt í loftið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þættirnir fjalla um íslensk fyrirtæki, rekstur og vangaveltur um fyrirtækin sem um ræðir. Áhersla er lögð á á að reifa ársreikninga og fara yfir reksturinn á mannamáli og bera saman við önnur fyrirtæki í sama geira.

Í fyrstu þáttum var fjallað um Omnom, ísbílinn, Jóa útherja og Litla jólahúsið á Akureyri.

Í nýjasta þættinum er fjallað um rekstur Sambíóanna og upprisu pizzastaðarins Flatey, en þau komu mjög ólíkt undan Covid faraldrinum. Íslendingar átu pizzur sem aldrei fyrr en þríeykið kom í veg fyrir að Íslendingar kæmust í bíó sem og frestanir á stórum myndum gerðu rekstur kvikmyndahúsa erfitt fyrir vik, segir í tilkynningunni.

„Við deildum báðir þeim áhuga á að vera að fjalla um mismunandi fyrirtæki og rekstur alla daga og lágum yfir veltutölum og viðskiptafréttum til að spekúlera í mismunandi geirum, rekstri og fleiru. Til að gera þetta hlustendavænt ætlum við ekki að dvelja of mikið í smáatriðum heldur horfa á heildarmyndina og greina hana með okkar eigin augum,“ segir Arnar Þór.

„Við erum báðir að sækja um 1-2 ársreikninga á dag að meðaltali og elskum að spá í þessu. Höfum reynslu af því að verðmeta fyrirtæki og excel-töffarast en hlaðvarpið á meira að vera andrými til að spá í hlutunum á léttu nótunum og mögulega fræða fleiri sem hafa áhuga á að grúska í tölunum,“ segir Ingvi Þór.

Fyrstu 10 þættirnir verða bara um ársreikninga skemmtilegra og þjóðþekktra fyrirtækja og ef markmiðið næst að fá 1 prósent þjóðarinnar til að hlusta þá verður haldið áfram og farið út í fleiri sálma, eins og rafmyntir, pælt í nýjum viðskiptafréttum, eða að fá þekkta aðila til að koma með í nánari útlistun á hvernig ákveðnar rekstrareiningar virka. Til dæmis að fá fyrrum eigendur eða stjórnendur til að hjálpa fólki að skilja hvernig hjól ákveðins atvinnuvegs snúast. Hvað þarf til að baka pizzur, byggja hús, selja tryggingar og þar fram eftir götum.

Hlaðvarpið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.d. á Spotify.