Afdráttarlausar yfirlýsingar menntamálaráðherra um að vilja Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði hafa vakið nokkra athygli. Sem eðlilegt er hefur ráðherrann þó þann varnagla á að vilja vanda til verka og tryggja að þær auglýsingatekjur sem RÚV verður af renni ekki beinustu leið til alþjóðlegra risa á borð við Google og Facebook.

Ráðherrann er ekki einn um að hafa áhyggjur af ægivaldi tæknirisanna. Evrópska samkeppniseftirlitið sektaði Google sem kunnugt er um 9 milljarða Bandaríkjadala fyrir að hamla samkeppni. Sama fyrirtæki sætir nú rannsóknum í Bandaríkjunum og er gefið að sök að vera í einokunarstöðu á auglýsingamarkaði. Rannsakendur segja að Google nýti yfirburðastöðu sína meðal annars til þess að stjórna flæði upplýsinga og frétta á netinu. Google og Facebook eru samanlagt með um 60% markaðshlutdeild í auglýsingasölu á netinu vestanhafs.

Auðvitað er það alvarlegt ef einn aðili misnotar aðstöðu sína og síar út upplýsingar sem ekki eru þóknanlegar. Ekki síður alvarleg er hins vegar sú staðreynd að Google og Facebook hafa aftengt hið hefðbundna tekjumódel fjölmiðla. Tekjumódel internetrisanna byggist ekki síst á því að vísa í fréttir um málefni líðandi stundar. Fjölmiðillinn sem vann fréttina fær hins vegar ekkert greitt.

Hefðbundnir fjölmiðlar eru því að stórum hluta orðnir fríar efnisveitur fyrir internetrisana, og með því hefur skapast ákveðin tilvistarkreppa sem ekki hefur verið ráðið fram úr. Þessi vandi er enn greinilegri á smærri mörkuðum, eins og hér á landi.

Sennilega er það sanngjarnt að þeir sem búi til efnið fái greitt fyrir það. Þá skekkju hefur markaðnum ekki tekist að leiðrétta. Raunar á það ekki einungis við gagnvart fjölmiðlum, heldur einnig tónlistarmönnum til að mynda, sem hafa nánast ekkert upp úr streymisveitum eins og Spotify.

Auðvitað er það rétt að RÚV á ekkert erindi á auglýsingamarkað. Hins vegar er það líka rétt hjá ráðherra að binda þarf þannig um hnútana að tekjurnar flæði ekki rakleiðis úr landi. Slík aðgerð yrði aðeins til að veikja innlenda fjölmiðla enn frekar.