Bandaríska verslanakeðjan Publix hóf við upphaf mánaðar sölu á þremur gerðum af sultum frá íslenska fyrirtækinu Good Good í 1.268 verslunum. „Þetta er í fyrsta sinn sem stór erlend verslanakeðja ákveður að selja vörur frá okkur í öllum sínum verslunum. Yfirleitt hafa verslanakeðjur byrjað á að selja vörurnar í 100-300 verslunum til að sjá hvernig salan gengur,“ segir Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good, í samtali við Markaðinn.

Flestar verslanir Publix eru í Flórída en þær eru einnig stafræktar í sex öðrum ríkjum: Alabama, Georgíu, Norður- og Suður-Karólínu, Tenn­essee og Virginíu. Garðar segir að Publix bjóði upp á gott úrval af gæðavörum á hagstæðu verði.

Fyrir mánuði hóf verslunin 7/11 í Kanada að selja tvær tegundir af Ketóstöngum í 640 verslunum. Nú fást vörur frá Good Good í 7.000 verslunum í 21 landi, þar með talið Amazon, Wholefoods, Walmart, El Corte Ingles, Safeway og Meijer.

Good Good selur matvöru sem er án viðbætts sykurs og er sætt með náttúrulegum sætuefnum sem henta meðal annars þeim sem eru á ketó-mataræði. Má nefna sultur, súkkulaðismjör, síróp og ketóstangir. „Sulturnar njóta langmestra vinsælda hjá okkur,“ segir Garðar. Um 45 prósent af sölunni í fyrra mátti rekja til sultanna og 21 prósent til ketóstanganna.

„Við erum matvælahönnuðir,“ segir Garðar.
Mynd/Aðsend

„Við erum matvælahönnuðir. Í raun er þetta ekki ósvipað dönskum húsgagnahönnuðum. Þannig er mál með vexti að dönsk hönnunarvara er oft hönnuð í Danmörku en framleidd í Austur-Evrópu. Good Good er íslenskt matvælafyrirtæki, vörurnar eru hannaðar hér á landi en framleiðslan er útvistuð til framleiðanda í Hollandi. Við erum með lager þar í landi og í Bandaríkjunum,“ segir hann og nefnir að með þeim hætti sé varan nær mörkuðum sem dragi úr flutningskostnaði og hægt að flytja vörur hraðar til viðskiptavina.

„Við erum á fleygiferð,“ segir Garðar um vöxtinn. „Horft er til þess að fyrirtækið muni hafa um 9,8 milljón Bandaríkjadala í tekjur í ár sem yrði tvöföldun á milli ára,“ segir hann. Fyrirtækið óx um 171 prósent á milli áranna 2019 og 2020. Salan á alþjóðlegum markaði í fyrra var 4,6 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 555 milljónir króna. Mest var salan til Bandaríkjanna eða 1,8 milljónir Bandaríkadala en salan hérlendis nam 747 þúsund Bandaríkjadölum, jafnvirði tæplega 100 milljónum króna.

„Starfsmenn Good Good voru tveir í fyrra en nú erum við níu, þar af tveir sölumenn í Bandaríkjunum. Aðrir starfa á Íslandi en við erum með fjölbreyttan hóp af frábæru fólki þar með talið Íslendinga, Ameríkana og Breta hér á landi,“ segir Garðar. Auk sölumanna á Austur- og Vesturströnd Bandaríkjanna eru í starfsmannahópnum sérfræðingur í að stýra aðfangakeðju, annar í gæðamálum, markaðsstjóri og sérfræðingur í netviðskiptum. „Við seljum mikið á netinu, til dæmis á Amazon, í gegnum okkar eigin síðu og Walmart.com,“ bendir hann á.

Fram kom í fréttum fyrir um ári að fyrirtækið hafi fengið 400 milljónir króna í nýtt hlutafé frá fjárfestum. Stærsti hlutafi Good Good er Eignarhaldsfélagið Lyng, móðurfélag Icepharma, með 51 prósents hlut og SNV holding í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur á 15 prósenta hlut.