Próteinverksmiðja frá Héðni er um borð í einum fullkomnasta verksmiðjutogara Bandaríkjanna, North Star, sem hélt til veiða í fyrsta skipti nú í haust en skipið er gert út frá Seattle. Verksmiðjan kallast HPP Protein Plant og er íslensk hönnun og smíði. Á undanförnum árum hefur Héðinn selt ýmsar útgáfur af HPP til sjö landa utan Íslands. Nema útflutningsverðmætin samtals um 40 milljónum evra, eða um sex milljörðum króna. Vinnslugeta verksmiðjanna er frá 10 til 400 tonnum á dag.

„HPP próteinverksmiðjan er hönnun sem var í þróun hjá Héðni í um tíu ár en prótótýpan var sett í gang 2017 í Sólberg ÓF-1 frá Ramma hf. Þetta er ansi merkilegt dæmi þar sem kemur saman íslenskt verkvit og hugvit í hátæknigeira,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri hjá HPP Solutions, dótturfélagi Héðins.

Pétur útskýrir að styrkleikar HPP próteinverksmiðjunnar liggi í því að hún tekur að minnsta kosti 30 prósent minna pláss, er með 30 prósent færri íhlutum og eyðir 30 prósent minni orku en hefðbundnar fiskimjölsverksmiðjur.

„Þetta er mun nettari hönnun en helstu keppinautarnir. Í hefðbundinni fiskimjölsverksmiðju eru 21 aðalhlutar og orka er sett inn á átta stöðum. Í HPP verksmiðjunni eru aftur á móti sjö aðalhlutar og orka er sett inn á tveimur stöðum,“ segir Pétur.

Pétur bendir á að þar sem HPP verksmiðja er um borð í skipum fari ekki arða af afla í sjóinn. „Við erum að tala um 100 prósent nýtingu á fiskinum. Það, sem áður var hent, verður að miklum verðmætum. Þannig er hægt að auka próteinframleiðslu án meiri veiða. Það er eitt stærsta umhverfismál okkar tíma hvernig mannkyn stendur að próteinframleiðslu án þess að ganga frekar á náttúruna. Með því að fullnýta aflann sýnum við virðingu fyrir náttúruauðlindinni og umhverfinu en skilum um leið verðmætari afurðum.“