Jerome Powell, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, hefur varað við því að bandaríska hagkerfið muni ekki ná fullum bata fyrr en bóluefni við kórónaveirunni hefur fundist. Það geti dregist fram til loka næsta árs.

„Til þess að hagkerfið nái fullum bata þarf fólk að vera öruggt með sig,” sagði seðlabankastjórinn í samtali við CBS News í gær. Til þess að svo verði raunin þurfi mögulega fyrst að finna bóluefni við veirunni.

Powell sagðist sannfærður um að bandaríska hagkerfið næði fullum bata en „það gæti tekið tíma, jafnvel fram til loka næsta árs. Við vitum það í raun ekki”.

Hann bætti jafnframt við: „Að því gefnu að það skelli ekki á önnur bylgja kórónaveirunnar tel ég að við munum sjá hagkerfið jafna sig jafnt og þétt á seinni hluta þessa árs.”

Aðspurður nefndi Powell að atvinnuleysi myndi líklega halda áfram að aukast á næstu mánuðum þannig að það færi upp í 20 til 25 prósent.

Til samanburðar stóð atvinnuleysi í landinu í 14,7 prósentum í síðasta mánuði og hafði þá ekki verið hærra frá því í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar.

„Góðu fréttirnar“ væru hins vegar þær, að sögn Powells, að “yfirgnæfandi” meirihluti þeirra sem þæðu nú atvinnuleysisbætur segðist hafa misst starfið tímabundið. Það þýddi að þeir byggjust við því að snúa aftur í sitt gamla starf þegar það rofar aftur til.

Fram kom í máli Powells að þrátt fyrir að löggjafinn hefði „unnið hratt og vel“ til þess að bregðast við efnahagsáhrifum kórónafaraldursins þyrftu Bandaríkjaþing og Seðlabanki Bandaríkjanna nauðsynlega að gera meira til þess að „koma í veg fyrir að hagkerfið verði fyrir langtímaskaða“.

Stórtækar aðgerðir í ríkisfjármálum í því augnamiði að „hjálpa fyrirtækjum að forðast greiðsluþrot“ gætu lagt grunninn að kröftugum efnahagsbata í kjölfar kreppunnar.