Flugfélagið Play var með betri sætanýtingu en Ice­land­air annan mánuðinn í röð. Sætanýting Play í nóvember var 79,1 prósent, að því er fram kemur í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær. Ice­land­air gaf út sínar farþegatölur á þriðjudag þar sem fram kom að sætanýting í nóvember hefði verið 73 prósent. Í október var sætanýting Play einnig betri en hjá Icelandair eða 81,9 prósent gegn 80 prósentum hjá Icelandair.

Stundvísi Play í nóvember var heil 98,2 prósent en samkvæmt tilkynningunni hefur Play aldrei náð betri stundvísi frá því að full starfsemi hófst. „Það hefur verið einkar ánægjulegt að sjá meiri en 90 prósent sætanýtingu á mörkuðum á borð við London og París. Þá er ég virkilega stoltur af stundvísi Play í mánuðinum. Okkur er mjög í mun að þjónusta farþega Play á sem bestan hátt og þetta er afraksturinn,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.