Fjármögnun nýja flugfélagsins Play hefur gengið hægar en forsvarsmenn félagsins höfðu vonað. Upphaflega stóð til að hefja sölu flugmiða nú um mánaðamótin en flugfélagið sendi frá sér tilkynningu um helgina þar sem fram kom að sölunni hefði verið frestað.

María Margrét Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Play, sagði í gær í samtali við RÚV fjármögnun flugfélagsins gengi hægar en gert var ráð fyrir. Því þurfi að endurskoða tímarammann sem félagið gaf upphaflega.

Í samtali við Fréttablaðið sem María Margrét að til standi að hefja miðasölu fyrir áramót.

„Við vonumst sem fyrst eða alla vega fyrir áramót,“ segir María Margrét.

Arnar Már Magnússon, forstjóri hins nýja félags, sagði á blaðamannafundi í nóvember að 80 prósent af fjármagninu kæmi erlendis frá og að félagið væri fjármagnað til lengri tíma í samvinnu við breskan fagfjárfestasjóð. Þar er um að ræða sjóðinn Athene Capital.

„Við erum fjármögnuð til lengri tíma. Það var okkur gríðarlega mikilvægt og það var það fyrsta sem við lögðum upp með; við munum ekki fara af stað nema hafa nægjanlegt fé. Bæði fyrir byrjunina, upphafið, fyrir stækkunina og til lengri tíma litið. Það hefur okkur tekist og það er í samvinnu við breskan fagfjárfestasjóð og gaman að segja frá því að það voru svo Íslensk verðbréf sem komu inn hér á Íslandi. Skiptingin er þannig að 80 prósent fjármagnsins kemur erlendis frá og 20 prósent héðan frá Íslandi,“ sagði Arnar.

Aðspurð hvort hvort einhverjir íslenskir fjárfestar hefðu sýnt áhuga segir María Margrét: „Það er ekki tímabært að segja frá því í augnablikinu.“

Hún segir málið í eðlilegu ferli. „Já, það er allt í vinnslu og verið að vinna að því núna.“