For­svars­menn flug­fé­lagsins Play vilja ekkert segja til um hve­nær þess megi vænta að sala hefjist á flug­miðum. María Margrét Jóhanns­dóttir, upplýsingafulltrúi félagsins segir í sam­tali við Frétta­blaðið að ekkert nýtt sé að frétta af félaginu.

Miðasala átti upphaflega að hefjast í nóvember en var síðar frestað til janúar. María segir að enginn sér­stök á­stæða sé fyrir að töfunum.

Boða um­sækj­endur í við­töl

At­hygli vekur að engin laus störf eru lengur aug­lýst á vef­síðu fé­lagsins en í kjöl­far blaða­manna­fundar sem blásið var til þann fimmta nóvember síðast­liðinn aug­lýsti fé­lagið eftir starfs­fólki í ýmis störf.

Meðal annars var aug­lýst eftir leik­fé­lögum en eftir að bent var á að orðið hefði ó­beina tengingu við banda­ríska tíma­ritið Play­boy var því hætt og aug­lýst eftir þjónustu­hetjum í staðinn.

„Við erum að boða í við­töl núna,“ segir María spurð að því hvort að búið sé að ráða í öll störf. Að öðru leyti vildi hún ekkert gefa upp um hver staða fé­lagsins væri.

Vand­ræði með fjár­mögnun

Frétta­blaðið sagði frá því í desember að launa­greiðslur til starfs­fólks Play vegna nóvember mánaðar hefðu tafist og að enn væri unnið að fjár­mögnun fé­lagsins. Sagði í fréttinni að fjár­festar hefðu gagn­rýnt fé­lagið fyrir ó­raun­hæfar við­skipta­á­ætlanir, skort á reynslu og að vilja eignast helmings­hlut í fé­laginu.

Í kjöl­far þeirrar gagnrýni buðust þeir til þess að lækka hlut­deild sína úr fimm­tíu prósentum í þrjá­tíu. Ekki hafa fengist upp­lýsingar um hvernig fjár­mögnun fé­lagsins gengur eða hvort að tafir á því að flug­fé­lagið taki á loft megi rekja til hennar.