Lággjaldaflugfélagið Play hyggst afla 33-36 milljóna Bandaríkjadala, jafnvirði 4 til 4,4 milljarða króna í hlutafjárútboði sem mun hefjast að morgni fimmtudagsins 24. júní og ljúka daginn eftir klukkan 16. Þetta kemur fram á heimasíðu Arctica Finance sem hefur umsjón með útboðinu.

Í apríl aflaði Play 47 milljóna Bandaríkjadala í lokuðu hlutafjárútboði. Fram kom í Markaðnum að við það tilefni að stefnt yrði að skrá félagið á First North-hliðarmarkaðinn. Gengið í lokaða hlutafjárútboðinu var 15,875.

Tveir áskriftarmöguleikar eru í boði með þátttöku í áskriftarleið A og áskriftarleið B sem eru ólíkar er varðar stærð áskrifta og úthlutun. Verð í áskriftarleið A er 18 krónur á hlut og verð í áskriftarleið B verður innan verðbilsins 18-20 krónur á hlut.

Í áskriftarleið A er áskriftarfjárhæðin frá 100 þúsund krónum til 20 milljón króna. Áskriftarleið B er fyrir þá sem bjóða fyrir meira en 20 milljónir króna.

Samkvæmt fjárfestakynningu er reiknað með að tekjur Play verði í ár 21 milljón dala og að félagið muni tapa 15 milljónum dala. Árið 2022 er talið að tekjurnar verði 170 milljónir dala og hagnaðurinn fjórar milljónir Bandaríkjadala, árið 2023 er spáð að tekjurnar verði 319 milljónir dala og hagnaðurinn 17 milljónir dala, árið 2024 verði tekjurnar 422 milljónir dala og hagnaðurinn 31 milljón og árið 2025 verði tekjurnar 509 milljónir dala og hagnaðurinn 43 milljónir Bandaríkjadala.

Talið er að sætanýtingin verði 72 prósent í ár og batni svo ár frá ári, verði 85 prósent árið 2020 og 89 prósent árið 2025.

Stærsti hluthafi Play er Birta lífeyrissjóður með 12,55 prósenta hlut, Fiskisund sem Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður flugfélagsins fer fyrir, á 11,86 prósenta hlut og Stoðir 8,37 prósent.

Fiskisund er einnig í eigu Höllu Sigrúnar Hjartardóttur og Kára Þórs Guðjónssonar.

Stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 55,3 prósenta hlut, en þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, téður Einar Örn, og Örvar Kjærnested, fjárfestir.