„Play er sem gott og tilbúið í flug. Við erum meira að horfa inni í haustið en erum tilbúin fyrr ef þess þarf.“

Arnar Már Magnússon, forstjóri Play var gestur Morgunútvarpsins á RÚV í morgun.

Flugfélagið Play hefur verið í mótun frá því í byrjun sumars 2019 en hefur stækkað í vetur og nú starfa alls 36 einstaklingar hjá félaginu sem allir hafa víðtæka reynslu innan flugbransans.

„Þetta hefur verið töluvert stærra verkefni en við bjuggumst við en það er mikil reynsla á bak við okkur sem hefur unnið okkur í hag. Við sáum Covid að sjálfsögðu ekki fyrir en blessunarlega vorum við ekki farin af stað.“

Lággjaldaflugfélag

Rekstrarmódel Play er lággjaldaflugfélag sem flýgur frá Norður-Ameríku til Evrópu með viðkomu á Íslandi, líkt og Icelandair og WOW air.

Arnar segir að erfitt sé að segja hverjir áfangastaðirnir verða akkúrat á þessum tímapunkti en að félagið sé með plön fyrir næstu þrjú til fimm árin niðurnegld.

„Við erum búin að ákveða áfangastaði en viljum ekki segja frá þeim eins og er því það gæti þurft að breyta þeim.“

Viðskiptamódel og leiðakerfi Play er fullmótað en næstu skref ráðast alfarið af framvindu Covid-19.

Markmiðið að stofna nýtt lággjaldaflugfélag og auka samkeppni

Markmiðið með félaginu er að stofna hér nýtt lággjaldaflugfélag. Play er íslenskt flugfélag sem mun bjóða upp á flug til og frá Íslandi og er markhópurinn ekki bara settur á erlenda ferðamenn heldur einnig Íslendinga.

„Tækifærin fyrir félag eins og Play sem er að koma inn á markaðinn núna eru stór. Við viljum veita samkeppni á þessum markaði á ný og okkur hlakkar til að taka þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi til frambúðar."

Kjör til fyrirmyndar

Play er fyrsta flugfélagið í langan tíma sem er með flugrekstrarleyfi frá byrjun. Búið er að semja við stéttarfélagið Íslenska flugstéttarfélagið sem er það sama og WOW var með samning við.

„Kjörin hjá okkur eru til fyrirmyndar. Það er algjörlega óskiljanlegt fyrir mér hvers vegna öðru var haldið fram. En það var gott fyrir okkur og Ragnar Þór að hann kom í heimsókn." Ragnari Þór Ingólfssyni, for­manni VR var boðið í heim­sókn til Play í síðustu viku til að kynnast starf­semi og hug­myndum fé­lagsins.

Aðspurður segir Arnar flugbransann að sjálfsögðu oft geta verið erfiðan en að það sé fyrst og fremst ástríða og metnaður fyrir því að hafa samkeppni á þessum markaði sem drífi félagið áfram.

„Ég byrjaði að fljúga hjá Ryanair þegar ég var tvítugur og hef alla tíð starfað í þessum bransa. Það eru stórar sveiflur á þessum markaði en á sama tíma getur hann líka verið skemmtilegur og arðbær.“

Gera ekki sömu mistökin

Arnar segir WOW air hafa verið frábært fyrirtæki og að það hafi sést eftir fall félagsins hversu mikil samstaða var í hópnum.

„Félagið gekk gríðarlega vel árið 2015 og 2016 en það voru stór mistök gerð sem við ætlum ekki að gera hjá Play. Þar er helst að nefna kaup á breiðþotunni, Airbus–330. Lággjaldamódelið virkar mjög vel á Airbus-320 fjölskyldunni og við ætlum að halda okkur við þær vélar, kostnaðurinn við a reka þær vélar er töluvert minni en á breiðþotu."

Verður ekki dýrara að fljúga

Arnar telur að miðaverð muni ekki endilega hækka þegar flug fer aftur í eðlilegt horf.

„Það eru jákvæð teikn á lofti og afar ánægjulegt að sjá hversu vel hefur verið tekið á málunum hér á landi síðustu mánuði sem setur Ísland í mjög spennandi stöðu hvað varðar framhaldið. Ísland getur verið ákjósanlegur staður fyrir ferðamenn að heimsækja."

Hann segir að í mikilli samkeppni á flugmarkaði reyni á flugfélögin að búa til rekstur þar sem félögin ráði við fargjöldin. Árið 2018 hafi flugfargjöld verið of lág vegna þess að samkeppnin var mikil.

„Þetta er aðhald í rekstri og það þarf að vera með fókus á því alla daga, allan ársins hring og við hjá Play höfum lagt mikið upp úr þessu."

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvort Play fari í loftið í sumar eða í haust en það er allavega á leið í loftið:

„Já, algjörlega, hundrað prósent," segir Arnar að lokum.