Flugfélagið PLAY hefur þurft að fella niður fjórtán ferðir til Evrópulanda vegna stöðu heimsfaraldursins. Upplýsingafulltrúi PLAY, Nadine Guðrún Yaghi, staðfestir þetta. Ferðirnar voru til Berlínar, Parísar og London og voru á áætlun í september.
„Ástæðan er einfaldlega kórónuveiran og PLAY, líkt og öll stærstu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli, sá sér ekki annað fært en að hagræða áætlun sinni á þessum óvissutímum,“ segir Nadine í skriflegu svari.
Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að tvær ferðaskrifstofur, Heimsferðir og Vita, hafa hvor um sig þurft að fella niður ferðir vegna ástandsins.
Nadine segir farþega sem áttu bókaða miða í umrædd flug geta valið um það að fá endurgreitt, breyta ferðadagsetningu eða fá endurgreiðslu í formi gjafabréfs með 10 prósent álagi. Þá segir hún að mikinn meirihluta farþega hafa kosið að breyta ferðadagsetningu í flug sem er á áætlun degi fyrr.
„Varðandi breytingar á flugi hefur verið nokkuð um það síðustu vikur, og þá aðallega vegna Covid-19 og stöðunnar á hverjum stað. Þetta er eitthvað sem áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og ekkert sem kemur á óvart í þessum efnum,“ segir hún.