Íslenska flugfélagið Play var valið besta nýja flugfélagið af alþjóðlegum samtökum um flugmál, CAPA. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Play.
Verðlaunin voru afhent í gærkvöldi við hátíðlega athöfn í Gíbraltar, en Birgir Jónsson, forstjóri Play tók við verðlaununum.
Í rökstuðningi fyrir valinu var sagt að Play hafi skarað fram úr með viðskiptamódeli sínu sem byggist á að flytja farþega á milli Bandaríkjanna og Evrópu með hagkvæmlega staðsetta heimahöfn á Íslandi.
Einnig hafi stjórnendur Play staðsett fyrirtækið vel fyrir framtíðina með áherslu á stafrænar lausnir og sjálfbærni sem einum af grunnstoðum fyrirtækisins.
„Það er afar ánægjulegt að fá svona alþjóðlega viðurkenningu á því sem við erum að gera og því frábæra starfi sem starfsfólk PLAY hefur unnið við krefjandi aðstæður. Þetta er gott veganesti til að fara með inn í komandi ár og veitir okkur aukinn kraft til að halda áfram að gera vel og halda áfram að byggja upp félag sem mun reynast ferðamönnum góður og hagkvæmur kostur,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.