Flugfélagið Play er langt á veg komið með að tryggja sér 35 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 4,5 milljarða króna í nýtt hlutafé frá bæði einkafjárfestum og stofnanafjárfestum. Á allra næstu dögum skýrist hver verður niðurstaðan í lokuðu hlutafjárútboði flugfélagsins sem hefur staðið yfir að undanförnu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins áforma stórar einkafjárfestar á borð við fjárfestingafélagið Stoðir og eigendur Langasjós, sem á heildverslunina Mata og fjárfestingafélagið Brimgarða, að taka þátt í útboðinu.

Einar Örn Ólafsson, hluthafi í Stoðum og fyrrverandi forstjóri Skeljungs, hefur farið fyrir hópi einkafjárfesta sem áforma þátttöku í útboðinu. Hópurinn hefur lagt áherslu á að Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts og Iceland Express, verði í kjölfarið ráðinn forstjóri flugfélagsins.

Birgir Jónsson var um tíma einnig aðstoðarforstjóri WOW air.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þá hafa stofnanafjárfestar, meðal annars lífeyrissjóðir, skoðað aðkomu að útboði Play en fremstir í flokki lífeyrissjóða eru Birta og Lífsverk. Samkvæmt heimildum Markaðarins fundaði stjórn Birtu í dag um þátttöku í útboðinu sem yrði umtalsverð.

Lífeyrissjóðirnir hafa lagt áherslu á að Play verði skráð á First North-markað Kauphallarinnar innan nokkurra mánaða.

Fjárfestar sem taka þátt í útboðinu eignast mikinn meira hluta í Play en miðað er við að virði félagsins sé í dag um 8 milljónir dala, sem jafngilda rúmlega einum milljarði króna. Verðmatið byggist meðal annars á þeim fjármunum sem Elías Skúli Skúlason, einn eigenda Airport Asssociates, og hópur fjárfesta hefur nú þegar lagt félaginu til.

Play hefur nú þegar tryggt sér þrjár leiguflugvélar til þess að hefja hefja áætlunarflug á vinsæla áfangastaði íslenskra ferðamanna.

Verð hlutabréfa Icelandair Group hefur lækkað um rúm 6 prósent frá lokun markaða á miðvikudaginn.

Hlutafjáraukning Play hefur miðað að því að fá breiðan hóp fjársterkra fjárfesta inn í hluthafahóp flugfélagsins. Fjárfestingaeignir Stoða, sem er stór hluthafi í Símanum, TM og Arion banka, voru metnar um 30 milljarða í lok síðasta árs.

Eignarhaldsfélagið Langisjór, sem er eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, átti eignir upp á tæplega 17 milljarða króna í árslok 2019. Í lok febrúar greindi Markaðurinn frá því að Langisjór hefði keypt allt hlutafé leigufélagsins Ölmu fyrir um 11 milljarða króna.