Allt áætlunarflug PLAY til Evrópu nema eitt fór á ætlun í morgun en Icelandair hafði aflýst öllum flugferðum til Evrópu í morgun vegna veðurs.

Sama gildir um Bandaríkjaflug flugfélaganna til Íslands í nótt en PLAY vélarnar lentu á réttum tíma í Keflavík í morgun en Icelandair hafði aflýst ferðunum.

Nadine Guðrún Yaghi samskiptastjóri PLAY segir starfsmenn PLAY hafa unnið hörðum höndum síðustu daga við að finna leiðir til að láta daginn í dag ganga upp.

„Við höfum fylgst mjög vel með síðustu daga og ákváðum að flýta ætlun í gær til þess að Bandaríkjavélarnar sem lentu í Keflavík í nótt væru aðeins fyrr á ferðinni. Sama gildir um Evrópubrottfarirnar í morgun en sérfræðingar hér hafa fylgst mjög vel með aðstæðum síðustu daga. Öryggi farþega er alltaf númer eitt, tvö og þrjú. Sérfræðingar okkar mátu það svo að við gætum haldið áætlun í morgun og þannig héldum við áætlun og PLAY vélarnar komu til landsins frá Bandaríkjnunum í nótt og fjögur Evrópuflug fóru á ætlun í morgun sem er frábært,“ segir Nadine sem kveðst afar stolt af starfsfólki PLAY síðustu daga.

„Þetta er auðvitað fagmennsku og reynslu sérfræðinga okkar að þakka,“ segir Nadine.

Ein vél PLAY til Liverpool fór ekki á ætlun í morgun vegna veðurs.