Skorturinn á plássi fyrir Boeing-vélar af gerðinni 737 MAX, sem ekki mega fljúga vegna flugbanns, er tilfinnanlegur við verksmiðju flugvélaframleiðandans bandaríska sem staðsett er skammt frá Seattle. Óafhentar vélar hafa safnast saman við verksmiðjuna og er lítið hægt að segja til um hvenær leyfi fæst fyrir því að hefja þær á loft á ný.

Norski miðillinn E24, sem er í eigu Verdens Gang, fjallaði í gær um ástandið við verksmiðju Boeing í Everett-sýslu í Washington-ríki en þar hafa vélarnar safnast saman á bílastæði starfsmanna.

Má þar meðal annars sjá vél merkta Icelandair. Flugfélagið íslenska er með þrjár vélar á sínum snærum en það hafði pantað alls sextán vélar sem til stendur að teknar verði í notkun þegar fram líða stundir.

Þannig er í pottinn búið að starfsmenn Boeing-verksmiðjunnar geta einhverjir þurft að leggja í bílnum í stæði örfáum metrum frá nefi 737 MAX-vélanna þegar þeir mæta til vinnu.

Örfáir metrar eru á milli bíla starfsmanna Boeing-verksmiðjunnar og vélanna sem ekki má hefja á loft.
Fréttablaðið/AFP

Flugbannið er tilkomið vegna tveggja banaslysa 737 MAX-véla á innan við hálfu ári. Í því fyrra, í október 2018, fórust 189 manns í flugi Lion Air yfir Indónesíu. Í því seinna, í mars á þessu ári, fórust 157 manns sem voru um borð í vél Ethiopian Airlines.

Boeing greindi frá því í apríl að dregið yrði úr framleiðslu vélanna. Þannig framleiðir fyrirtækið 42 vélar á mánuði í stað 52. Upphaflega hafði staðið til að auka framleiðsluna í 57 vélar hvern mánuð. Ómögulegt er að segja til um hvenær nákvæmlega 737 MAX-vélarnar mega taka á loft á ný. Talað hefur verið um desember í þeim efnum en ekkert er fast í hendi hvað það varðar.

Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, viðurkenndi á flugsýningu í París í síðasta mánuði að mistök hafi verið gerð í samskiptum flugfélagsins við eftirlitsaðila, flugfélög og flugmenn vegna vélanna sem um ræðir.