Auglýsingastofan Pipar\TBWA hefur verið tilnefnd til Global Search Awards fyrir auglýsingaherferð sem unnin var fyrir rútufyrirtækið Gray Line Iceland. Pipar vann herferðina í samstarfi við auglýsingastofuna The Engine, en herferðin var svokölluð PPC-herferð sem fer eingöngu fram á netinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um málið.

,,Að eiga eina af bestu PPC-herferðum heims á tímum sem þessum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki er svo óneitanlega skrítin tilfinning en líka finnur maður fyrir bjartsýni. Þessi þekking mun nýtast ferðaþjónustunni aftur áður en við vitum af,“ segir Hreggviður S. Magnússon, leiðtogi í stafrænni markaðssetningu hjá The Engine og Pipar\TBWA.

Haukur Jarl Kristjánsson hafði yfirumsjón með framkvæmd herferðarinnar. ,,Það var ljóst að hátindi ferðamannaiðnaðarins hafði verið náð í janúar 2018. Það sást þegar farþegatölur 2019 voru skoðaðar í samanburði við 2018. Þrátt fyrir samdrátt á milli ára hafði samkeppni á ferðatengdum leitum aldrei verið meiri og sýnileiki almennt dýrari. Helsta áskorun okkar í verkefninu fyrir Gray Line Iceland var að viðhalda vexti í bókunum innan ákveðins kostnaðarramma, þar áttu PPC-herferðirnar veigamikinn þátt og heppnuðust stórkostlega vel. Þessa vinnu eigum við nú alla inni þegar ferðalög til Íslands opnast aftur, það er verðmætt,“ segir Haukur Jarl.