Auglýsingastofurnar Pipar\TBWA og The Engine unnu til alþjóðlegra verðlauna, Global Marketing Awards í flokknum besta PPC-herferð heims, en þær fara eingöngu fram á netinu, fyrir auglýsingaherferð sem unnin var fyrir rútufyrirtækið Gray Line Iceland. Tilkynnt var um verðlaunin um helgina.

„Þetta er að sjálfsögðu mikill heiður enda hörð barátta á milli fjölda fyrirtækja um allan heim en í ár stóð valið á milli Gray Line Iceland og Hilton Hotels í Bretlandi í þessum flokki sem eitt og sér er ákveðinn gæðastimpill. Þessi sigur okkar á Global Marketing Awards er til marks um að sú aðferðarfræði sem við höfum verið að þróa áfram og innleiða fyrir okkar viðskiptavini sé á heimsmælikvarða,“ segir Haukur Jarl Kristjánsson, sem hafði yfirumsjón með framkvæmd herferðarinnar hjá The Engine og Pipar\TBWA í tilkynningu.