Fjárfestingarbankinn Fossar afhentu Píeta samtökunum tæpar 24 milljónir króna eftir Takk daginn sem bankinn stóð fyrir. Alls söfnuðust 23.875.312 krónur á Takk daginn sem haldinn var 24. nóvember síðastliðinn.

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna tók við söfnuninni og sagði hana vera mikil lyftistöng og stórkostlegt liðsinni við starf samtakanna. Píeta samtökin voru stofnuð árið 2016, en þau eru fjármögnuð nær alfarið með frjálsum framlögum

„Síðust ár má segja að veldisvöxtur hafi verið í starfsemi Píeta og ljóst að þörf var fyrir starfsemi okkar. Við þökkum Fossum og öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið kærlega fyrir framtakið,“ segir Kristín.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, segir að söfnunin hafi slegið met á hverju ári frá byrjun, en á síðasta ári söfnuðust rúmar 21,6 milljónir króna sem runnu til Jafningaseturs Reykjadals.

„Mikill vöxtur undanfarin ár gleður okkur mjög, en þar vegur þungt þáttur viðskiptavina Fossa sem lagt hafa söfnuninni lið með beinum framlögum inn á reikning söfnunarinnar. Við erum þeim afar þakklát fyrir að leggja söfnuninni lið með þessum hætti,“ segir Haraldur.

Haraldur bætir við að það hafi verið gaman að fagna deginum með hefðbundnum hætti á ný, en Covid-19 hafi sett strik í reikninginn síðustu tvö ár. Engu að síður var þátttakan mikil í ár segir hann að allir hafi lagst á eitt, viðskiptavinir og samstarfsaðilar.

Auk Fossa taka Kauphöllin og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.