Fram­tíð bresku verslunar­keðjunnar Ar­ca­dia, sem Philip Green fer fyrir, er í lausu lofti og deilur eru uppi um hvernig bregðast skuli við á meðal stjórnar fé­lagsins.

The Guar­dian greinir frá því að stjórn fé­lagsins, sem rekur meðal annars tísku­verslanirnar Tops­hop, Top­man, Miss Sel­frid­ge, Dor­ot­hy Perkins og Wallis, hafi fundað í allan dag í þeim til­gangi að komast að sam­komu­lagi um hvaða leið skuli fara til þess að reyna að bjarga fé­laginu sem horfir fram á gjald­þrot.

Fregnir herma að full­trúar frá ráð­gjafa­fyrir­tækinu Deloitte hafi lagt til við fé­lagið að hag­ræða með því að lækka leigu­kostnað í fjölda af 570 verslunum þess og loka í kringum 50 þeirra. Við­búið er að nánari út­listun á hug­myndum Deloitte liggi fyrir á næstu dögum.

Það mun þó kunna að reynast fé­laginu erfitt að ná sátt á meðal leigu­sala um slíkt að því er The Guar­dian greinir frá. Green er hins vegar sagður vera reiðu­búinn að bjóða leigu­sölunum hlut í fé­laginu auk þess sem hann hafi lofað því að fé­lagið muni lappa upp á húsnæði verslananna fyrir fjár­hæð allt að 100 milljónum punda.

Philip Green festi kaup á Ar­ca­dia-sam­stæðunni árið 2002, meðal annars með hjálp Baugs Group. Baugur, sem átti þá þegar 20 prósent í Ar­ca­dia, lagði fram sam­eigin­legt yfir­töku­til­boð á­samt Green árið 2002 en um það leiti fram­kvæmdi efna­hags­brota­deild ríkis­lög­reglu­stjóra leit á skrif­stofum Baugs á Tún­götu.

Markaðurinn fjallaði um bók Oli­vers Shah, við­skipta­rit­stjóra Sunday Times, í fyrra þar sem hann skrifar um við­skipta­ævin­týri Green og þá gagn­rýni sem hann hlaut þegar versluna­keðjan BHS, sem fór undir Ar­ca­dia árið 2009, fór í gjald­þrot fyrir þremur árum.