Breska verslunarkeðjan Arcadia, sem kaupsýslumaðurinn umdeildi Philip Green fer fyrir, áformar að loka 23 verslunum í viðleitni til þess að bjarga sér frá gjaldþroti. Um 520 störf eru í hættu, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Samkvæmt björgunaráætlun sem Green hefur útbúið verður áðurnefndum 23 verslunum lokað og leiguverð á rýmum 194 verslana lækkað en Arcadia rekur meðal annars verslanir Topshop, Topman, Miss Selfridge, Dorothy Perkins og Wallis.

Bresk yfirvöld, sem þurfa að leggja blessun sína yfir björgunaráætlun Greens, hafa þó sagst efast um að áætlunin sé fullnægjandi til þess að vernda lífeyri starfsmanna verslunarkeðjunnar.

Green hyggst beita sérstöku ákvæði í leigusamningum Arcadia sem gerir keðjunni kleift að loka verslunum sem eru reknar með tapi og lækka leiguverðið á öðrum verslunarrýmum, þvert gegn vilja leigusala.

Samningsákvæði sem þessi hafa notið vaxandi vinsælda í breskri verslun en þeim er ætlað að hjálpa verslunum sem eiga við skuldavanda að glíma að losa um fjármagn og greiða niður skuldir sínar.

Green segist vera reiðubúinn til þess að leggja Arcadia til 100 milljónir punda, sem jafngildir um 15,7 milljörðum króna, til viðbótar til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum starfsmanna en bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að meira þurfi að koma til.

Ian Grabiner, forstjóri Arcadia Group, segir aðgerðir keðjunnar „ erfiðar en nauðsynlegar “ til þess að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn. Arcadia hyggst jafnframt loka öllum ellefu Topshop og Topman verslunum sínum í Bandaríkjunum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.