Guðvarður Gíslason, veitingamaður í Gamla bíó og Petersen svítunni, segir að allt sé komið á fulla ferð í þessu þekkta veitinga- og viðburðarhúsi, eftir að létt var á hömlum eftir Covid. Hann er gestur Jóns G. í kvöld á Hringbraut en þáttur Jóns hefur verið tekinn upp í Petersen svítunni í vetur.

Þátturinn er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 og 23 í kvöld.

Guðvarður, eða Guffi eins og hann er jafnan nefndur, hefur verið einn allra þekktasti veitingamaður landsins í áratugi. Hefur byggt upp veitingastaði eins og Apótekið, Jónatan Livingstone Máv og auðvitað Gamla bíó, rak veitingasöluna á Hótel Loftleiðum um árabil og sló í gegn með Gauk á Stöng á sínum tíma – sem hann rak ásamt fleirum.

Þeir Jón ræða meðal annars hversu mikið þrekvirki það var hjá bíóstjóranum Peter Petersen, Bíópetersen, að reisa Gamla bíó en hafist var handa við bygginguna 13. september árið 1926 og var fyrsta myndin sýnd þar 2. ágúst 1927. Þrekvirki að reisa húsið svo hratt.

Bíópetersen hafði rekið kvikmyndahús í Fjalarkettinum frá 1907 en það húsnæði var orðið of lítið, auk þess sem hörð samkeppni var komin frá Nýja bíói sem var komið í nýtt húsnæði. Og hvað skírir maður þá gamla bíóið sitt eftir að bíó að nafni Nýja bíó er komið til sögunnar? Jú, Gamla bíó!! Skemmtilegt.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.