Nýsköpunarfyrirtækið CrankWheel hefur ráðið Peter Short sem tæknistjóra (CTO). Mun Peter leiða þróun lausna CrankWheel og vinna við viðbætur á vöruframboði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Peter van áður í fjögur ár hjá Mengia sem hópstjóri forritara. Þar á undan vann hann í níu ár hjá Landsbankanum sem Senior Technical Lead og sem forritari við netbankalausnir.

Peter er frá Írlandi en fluttist ungur til Dubai þar sem hann útskrifaðist með BS gráðu í tölvunarfræði frá Wollongong háskóla.

Peter var um tíma fyrirliði íslenska rúgbí-liðsins en í dag þegar hann er ekki að sinna fjölskyldunni eða vinnunni, týnir hann sér í lestri góðra bóka, spilar á gítar eða fiktar við tölvur.

Jói Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri CrankWheel, segir að þekking og reynsla Peters komi að góðum notum. „Hann mun styðja undir þann mikla vöxt sem við höfum séð undanfarin ár. Nú getum við gefið út stórar viðbætur oftar og því þróað okkar þjónustu enn meira.”

CrankWheel var stofnað árið 2016 af Jóa Sigurðssyni og Þorgils “Gilsa” Sigvaldasyni.

CrankWheel býður upp á skjádeililausn sem varpar skjá notandans yfir á tölvu eða snjalltæki viðtakandans í rauntíma. CrankWheel er notað til að gefa símtölum sjónræna dýpt og geta viðtakendur séð skjá notandans án uppsetningar eða skráningar. Auk skjádeilingar, geta notendur streymt myndböndum í fullum gæðum og gefið viðtakanda stjórn á skjánum sínum.

Haustið 2021 tók CrankWheel yfir rekstur danska nýsköpunarfélagsins Accordium og bætti þar með möguleikanum á ræfrænum undirskriftum í vöruframboðið.

Í kjölfar heimsfaraldurins og aukinnar fjarvinnu, hefur notendafjöldi CrankWheel vaxið mikið. Notendur CrankWheel í dag koma meðal annars úr tryggingum, fjármálageiranum, orkugeiranum, fjarskiptafyrirtækjum og stafrænum auglýsingastofum.