Paylink er ný greiðsluleið á vegum fjártæknifyrirtækisins SalesCloud. Upphaflega var Paylink hugsað sem greiðsluleið til þrautavara þegar hefðbundin kerfi bregðast.

„Við höfum verið að þróa þessa lausn síðan í september í fyrra eftir að tölvuþrjótar gerðu risastóra árás á öll greiðslukerfi. Fyrirtæki lentu í því að kerfin lágu niðri í á aðra klukkustund og lærdómur okkar af því var að við verðum að geta boðið upp á varaleið fyrir okkar viðskiptavini þegar slík vandamál skapast,“ segir Rúnar Leví Jóhannsson, forritari hjá SalesCloud.

„Það var svona upprunalega hugmyndin en svo vatt þetta upp á sig og við fórum að sjá að með þessu bjóðast aðrir möguleikar sem geta hentað við mörg tilefni sem hafa í raun ekkert með slíkar árásir að gera.”

Paylink virkar þannig að með QR kóða geta viðskiptavinir einfaldlega klárað viðskiptin og gengið frá greiðslu án þess að fara að afgreiðsluborðinu eða reiða sig á hefðbundin kassakerfi.

„Ef við tökum veitingastaði sem dæmi, þar sem viðskiptavinir fá reikning á borðið eftir máltíðina, þá er sáraeinfalt að skanna kóðann og ganga þannig frá greiðslunni í símanum. Þá þarf ekki að kalla aftur á þjóninn eða fara að einhverju afgreiðsluborði,” segir Rúnar.

„Svo bíður Paylink líka upp á fólk skipti greiðslum eða bæti við þjórfé. Þannig að við höfum verið að prjóna við þetta ákveðnar viðbætur sem spara bæði viðskiptavinum og starfsfólki sporin.

Rúnar segir Paylink þannig hafa þróast yfir í sér þjónustu og í raun enn ein leiðina til að gera greiðsluferlið einfaldara og þægilegra.

„Það má eiginlega segja að þetta sé dæmi um það hvernig ákveðin vandi leiðir af sér vöruþróun sem leysir mun fleiri vandamál en upphafleg markmið gáfu til kynna.“

Fjártæknifyrirtækið SalesCloud sér litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir sölukerfi í skýinu. Félagið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og afgreiddi til að mynda yfir 4 milljónir viðskiptavina árið 2021.