Kristófer Oli­vers­son, for­maður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir að lítið sé um hótel­bókanir fyrir sumarið og ó­vissan vegna COVID-19 spilar stærstan þátt í því.

„Þær erlendu bókanir sem hafa komið inn undanfarið ár hafa jöfnum höndum afbókast svona tvo þrjá mánuði fram í tímann á meðan að þessi óvissa er,“ segir Kristófer.

Flest hótelin á höfuð­borgar­svæðinu eru lokuð um þessar mundir enn á þeim hótelum sem er opið eru einhver viðskiptin um helgar, segir Kristófer.

„Það er þá einkum para- og dekurpakkar og slíkt. Fólk að gera sér dagamun og gista eina nótt, fara í spa og út að borða. Þetta er einkum bundið við helgarnar en erlendir ferðamenn eru afar sjaldséðir þessa dagana,“ segir Kristófer.

Kristófer er einnig framkvæmdastjóri Center Hotels. Eins og staðan er núna er einungis Center Hotels Miðgarður opið.
Fréttablaðið/Stefán

Nauðsynlegt að framlengja eða bæta í aðgerðir

Kristófer bendir á að þrátt fyrir að Íslendingar gætu verið að mestu bólusettir um sumarið þá hefur ástandið erlendis einnig áhrif.

„Það er eitthvað byrjað að bókast inn í sumarið en það verður ekki fyrr en búið er að létta af óvissunni bæði hér á landi og í okkar viðskiptalöndum, sem þetta fer í gang aftur. Okkar markaðir eru meira og minna lokaðir ennþá og íbúar þar hvattir til að halda sig heima og ferðast ekki til útlanda,“ segir Kristófer.

„Það kemur nánast enginn hingað til að fara í sóttkví. Landið er lokað núna og það er allt í frosti og menn bíða bara eftir að bólusetning gangi fyrir sig og það farið að þiðna aftur.“

Í því sam­hengi skiptir mestu máli að bólu­setja hér heima en ekki síður á þeim mörkuðum sem verið er að sækja á. Spurður um hvort hótelin geti þraukað út árið og hvort margir séu að berjast í bökkum, segir Kristófer það brýnt að framlengja aðgerðir stjórnvalda.

„Þetta eru eins erfiðir tímar í greininni og hugsast getur. Nú eru fyrirtækin búin að vera nánast tekjulaus í heilt ár vegna Covid19. Helstu aðgerðir sem gripið var til voru miðaðar við mánuði en nú er þetta farið að telja í misserum. Þannig það er mjög brýnt að framlengja þær aðgerðir og bæta í svo fyrirtækin nái til lands og viðspyrnan verði kröftug. Það gildir einu hvort um er að ræða snjóflóð, aurflóð eða heimsfaraldur, við þurfum að klára verkið,“ segir Kristófer.