Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management, sem er stærsti hluthafi Icelandair Group, hefur minnkað við sig í flugfélaginu með sölu á um ellefu milljónum hluta. Er þetta í fyrsta sinn sem sjóðurinn selur bréf í félaginu eftir að hann fjárfesti fyrst í því í apríl í fyrra.

PAR Capital hefur selt liðlega 0,2 prósenta hlut í Icelandair Group fyrir jafnvirði um 32 milljónir króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í flugfélaginu - 2,9 krónur á hlut - og fer í kjölfarið með 13,5 prósenta eignarhlut í félaginu, eins og lesa má út úr nýjum lista yfir stærstu hluthafa þess. Er sá hlutur metinn á um 2,1 milljarð króna.

PAR Capital, sem er fjárfestingasjóður í Boston með um fjóra milljarða dala í stýringu, jafnvirði um 590 milljarða króna, náði sem kunnugt er samkomulagi við Icelandair Group í byrjun apríl í fyrra um kaup á um 11,5 prósenta eignarhlut fyrir samtals 5,6 milljarða króna með útgáfu á nýjum hlutum í félaginu. Sú hlutafjárhækkun, eða samtals 625 milljón hlutir, var samþykkt á hluthafafundi síðar í sama mánuði.

Í kjölfarið stækkaði sjóðurinn hlut sinn í flugfélaginu með kaupum á ríflega tveggja prósenta hlut til viðbótar.

Forsvarsmenn Icelandair Group greindu frá því fyrir um viku að stefnt væri að hlutafjárútboði á næstunni til þess að tryggja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma en félagið hefur á síðustu mánuðum orðið harkalega fyrir barðinu á ferðatakmörkunum sem stjórnvöld víða hafa sett til þess að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Er útboðið sagt háð því að viðræður við stéttarfélög skili árangri sem og að samþykki hluthafafundar liggi fyrir.

Þá hefur félagið sagt að viðræður standi einnig yfir við aðra hagaðila, svo sem fjármögnunaraðila, flugvélagaleigusala og birgja, til þess að styrkja langtímasamkeppnishæfni félagsins enn frekar. Þá hefur félagið jafnframt verið í góðu sambandi við stjórnvöld.

Í tilkynningu sem Icelandair Group sendi frá sér í fyrradag var tekið fram að stjórnendur félagsins undirbyggju það nú undir órætt tímabil þar sem starfsemin yrði í lágmarki. Meðal anars yrði ráðist í víðtækar aðgerðir sem fælu í sér uppsagnir á umtalsverðum hluta starfsfólks í þessum mánuði.

Hlutabréfaverð í Icelandair Group hefur fallið um meira en sextíu prósent það sem af er ári og ríflega sjötíu prósent frá þeim tíma þegar PAR Capital kom fyrst inn í hluthafahóp þess.

Eignarhlutur annarra stórra hluthafa í Icelandair Group - sem eru einkum lífeyrissjóðir - hefur haldist óbreyttur að undanförnu. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafi flugfélagsins með 11,8 prósenta hlut og þá heldur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 8,2 prósenta hlut.

PAR Capital, sem leggur áherslu á langtímafjárfestingar í ferðaþjónustu og stafrænum miðlum, er meðal annars hluthafi í bandarísku flugfélögunum United Airlines, Delta Airlines, JetBlue Airwaves og Southwest Airlines.