Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management, sem var um tíma stærsti hluthafi Icelandair Group, hefur selt öll bréf sín í flugfélaginu. Sjóðurinn seldi í morgun tæplega 442 milljónir hluta á genginu 0,87 krónur á hlut, eða fyrir um 384 milljónir króna, en það jafngildir liðlega 1,5 prósenta eignarhlut í Icelandair.

Gengið frá viðskiptunum eftir lokun markaða í gær en það var Íslandsbanki sem hafði umsjón með þeim, samkvæmt heimildum Markaðarins. Kaupendur að bréfunum var breíður hópur fjárfesta.

PAR Capital, sem leggur einkum áherslu á langtímafjárfestingar í fyrirtækjum í ferðaþjónustu, kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair í apríl í fyrra þegar hann eignaðist um 11,5 prósenta eignarhlut fyrir samtals 5,6 milljarða króna með útgáfu á nýjum hlutum í félaginu á genginu 9,03 krónur á hlut. Í kjölfarið stækkaði sjóðurinn hlut sinn í flugfélaginu með kaupum á ríflega tveggja prósenta hlut til viðbótar.

Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á fyrr á árinu, sem hefur lamað starfsemi allra flugfélaga í heiminum, hóf PAR Capital að minnka hlut sinn í Icelandair. Þannig hefur sjóðurinn allt frá því í apríl á þessu ári, þegar gengi bréfa Icelandair var komið niður fyrir 3 krónur á hlut, smám saman verið að losa um bréf sín. Þegar 23 milljarða króna hlutafjárútboð Icelandair fór fram um miðjan síðasta mánuð, þar sem nýtt hlutafé var selt á genginu einum, þá stóð hlutur hans í 10,5 prósentum.

PAR Capital tók hins vegar ekki þátt í útboðinu og við það þynntist hlutur sjóðsins verulega og var tæplega tvö prósent í kjölfarið. Sjóðurinn hefur síðan haldið áfram uppteknum hætti eftir útboð Icelandair og minnkað enn frekar við hlut sinn en með viðskiptunum sem fóru fram í morgun hefur PAR Capital sem fyrr segir núna selt allan hlut sinn í félaginu.

Stærstu hluthafar Icelandair í dag eru lífeyrissjóðirnir LSR og Gildi með annars vegar um 8 prósenta hlut og hins vegar um 6,6 prósenta hlut. Þá eru stóru bankarnir – Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki – skráðir fyrir umtalsverðum eignarhlut í flugfélaginu, eða samtals um 13 prósenta hlut. Þau bréf skiptast hins vegar að langstærstum hluta á veltubók og framvirka samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína.