Pálmi Haraldsson, fjárfestir og fyrrverandi eigandi Fons, hefur á síðustu vikum bætt við sig samtals 20 milljónum hluta í Icelandair Group, sem jafngildir um tæplega 0,4 prósenta eignarhlut, í flugfélaginu og er félag í hans eigu, Sólvöllur ehf., núna orðinn tólfti stærsti hluthafi félagsins með 1,68 prósenta hlut.

Þá átti Pálmi, sem var áður aðaleigandi flugfélagsins Iceland Express, einnig um 0,3 prósenta hlut í Icelandair í árslok 2018 í gegnum eignarhaldsfélag sitt Ferðaskrifstofu Íslands en það fyrirtæki rekur ferðaskrifstofurnar Sumarferðir, Úrval Útsýn og Plúsferðir. Samanlagður eignarhlutur þessara tveggja félaga Pálma – Sólvallar og Ferðaskristofu Íslands – nemur því um tveimur prósentum. Miðað við núverandi gengi bréfa Icelandair er sá hlutur metinn á um 750 milljónir króna.

Pálmi, sem var á sínum tíma stór hluthafi í Icelandair og sat í stjórn flugfélagsins á árunum 2003 og 2004, er stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi fyrirtækisins.

Stærstu hluthafar Icelandair eru bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital með 13,71 prósenta hlut og Lífeyrissjóður verslunarmanna sem fer með 12 prósenta hlut.

Stapi lífeyrissjóður hefur á síðustu vikum minnkað verulega við eignarhlut sinn í Icelandair og á núna 1,6 prósenta hlut. Sjóðurinn átti hins vegar til samanburðar tæplega 2,4 prósenta hlut í flugfélaginu um miðjan síðasta mánuð.

Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um 26 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði félagsins í dag um 38 milljörðum króna.