Pakistanska ríkisstjórnin hefur komist að samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) um neyðarlán upp á sex milljarði Bandaríkjadala, að andvirði um 730 milljarði íslenskra króna.

Lánið er ætlað að aðstoða Pakistana við að tryggja stöðu ríkissjóðs og vinna upp á móti samdrætti í efnahagslífi. Fjármálaráðherra Pakistan, Hafeez Shaikh, bindur vonir við að þetta verði síðasta neyðarlánið sem Pakistan þarf að þiggja, en Miðasíuríkið hefur iðulega þurft á fjárhagsaðstoð að halda síðastliðna þrjá áratugi.

Að mati fulltrúa AGS stendur Pakistan höllum fæti. Lítill hagvöxtur, hækkandi verðbólga, skuldugur ríkissjóður og slæm ytri skilyrði setja öll strik í reikninginn.

Ríkisstjórn Imran Khan verður þó ekki strax kennt um ástandið, en þegar hún tók við stjórnartaumunum í fyrra fylgdi slæmt búi. Í fyrstu leitaði Khan á náðir auðugra ríkja á Arabíuskaganum; Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin, en einnig reyndi ríkisstjórn Khan að tryggja sér lán frá Kínverjum.

Hins vegar voru efnahagsskilyrði afleit þar í landi, og illa gekk að tryggja lánsfé. Verðbólga þar í landi er um 8 prósent og fer vaxandi, gjaldmiðillinn hefur fallið um þriðjung í verði á undanförnu ári og gjaldeyrisforði dugar varla fyrir tveggja mánaða alþjóðaviðskiptum. Leitaði því ríkisstjórnin tilneydd til AGS, sem féllst í dag á að veita lánið að nokkrum skilyrðum uppfylltum.

Skilyrði AGS fyrir láninu eru m.a. að meiriháttar tiltekt fari fram í pakistönskum efnahag. Lagt er upp með að skuldir hins opinbera verði lækkaðar til muna. Þá mun seðlabanki Pakistan leggja megináherslu á að lækka verðbólgu og viðhalda efnahagslegum stöðugleika.