Ekki er komið heildarkostnaðarmat á hve mikið það mun kosta Seðlabankann að byggja upp innlenda greiðslumiðlun. Þetta kemur fram í svari frá Seðlabankanum við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Morgunblaðið hefur greint frá því að Seðlabankinn vinni að því að koma á fót innlendri greiðslumiðlun í ljósi áhyggna af því að nú eru Valitor, SaltPay (áður Borgun) og Rapyd (áður Korta) í eigu útlendinga.

Fundað hefur verið fjórum sinnum í þjóðaröryggisráði vegna málsins því íslensku efnahagskerfi kunni að stafa ógn af eignarhaldinu, segir í frétt Morgunblaðsins.

Hvaða áhrif á samkeppnina teljið þið innreið SÍ á þessu sviði muni hafa?

„Við lítum ekki á þetta sem innreið Seðlabankans inn á markað heldur er um að ræða viðbót við millibankakerfi Seðlabankans sem gera innlánstofnunum, og mögulega öðrum, kleift að bjóða viðskiptavinum sínum upp á innlenda óháða greiðslumiðlun. Seðlabankinn er ekki að fara að gefa út greiðslukort eða bjóða upp á greiðslulausnir í eigin nafni,“ segir í svarinu.

Skipta má kostnaðinum í tvennt. „Annars vegar vegna grunnvinnu við mat á mögulegum lausnum fyrir innlenda óháða smágreiðslumiðlun. Sú vinna er í gangi leidd af sérfræðingum Seðlabankans og er kostnaður við hana ekki umtalsverður. Hins vegar kostnaður af innleiðingu lausnar og er sú greining ekki fullkláruð,“ segir í svari frá Seðlabankanum.

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabankans, sagði við Morgunblaðið að verkefnið væri unnið í samstarfi við Reiknistofu bankanna. „Þegar verkefnið verður komið lengra munum við einnig vinna þetta með kerfislega mikilvægum bönkum hér innanlands,“ sagði hann.