Óvíst er hvort Seðlabankinn muni byrja á því að birta stýrivaxtaspáferilinn eins og lagt var til í skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu sem var gefin út í fyrra. Ásgeir Jónsson sem tók við sem seðlabankastjóri í lok sumars var einn af höfundum skýrslunnar.

Á opnum fundi sem var haldinn í gær í kjölfar vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar sagðist Ásgeir ekki getað tjáð sig um hvort Seðlabankinn myndi byrja að birta stýrivaxtaspáferilinn undir hans stjórn.

„Hvað varðar framvirka vaxtaferilinn að þá var það sagt í mínu fyrra lífi. Þá var ég formaður nefndar sem lagði þetta til. Sem seðlabankastjóri get ég ekki beinlínis tjáð mig um þetta núna en það er misjafnt hvað seðlabankar gera í þessu efni. Þetta er eitthvað sem við ræðum,“ sagði Ásgeir sem var formaður nefndar um framtíð íslenskrar peningastefnu sem sem skilaði af sér skýrslu sumarið 2018.

Í skýrslunni var lagt til að Seðlabankinn skyldi birta stýrivaxtaspáferil í Peningamálum fjórum sinnum á ári. Þannig væri unnt að styrkja markaðsvæntingar og auka gagnsæi í langtíma vaxtastefnu bankans. Bentu skýrsluhöfundar á að Seðlabankinn hefði birt eigin stýrivaxtaspá í Peningamálum frá árinu 2007 til ársins 2008 með góðum árangri.

Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, ítrekaði á fundinum að núverandi fyrirkomuleg væri þannig að stýrivaxtaspáferilllinn tilheyrði hagfræðisviði bankans en ekki peningastefnunefnd.

„Það yrði þá að breyta því þannig að þetta yrði stýrivaxtaferill peningastefnunefndar vegna þess að peningastefnunefndin þarf ekki að vera sammála þeim stýrivaxtaferli sem er í spá hagfræðisviðs. Þetta eru hlutir sem við þyrftum að ræða ef við tækjum ákvörðun um að birta hann. Ég held að þeim sem eru að greina stöðuna væri ekkert gagn gert að fá stýrivaxtaferil hagfræðisviðs ef peningastefnunefndin væri á allt annarri skoðun eins og við höfum áður séð.“