Óvíst er hvort stjórn HB Granda hafi verið heimilt að víkja Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra úr starfi og ráða í hans stað stjórnarformanninn Guðmund Kristjánsson, aðaleiganda Brims, stærsta hluthafa útgerðarinnar, meðan á yfirtökutilboði Brims stendur. Þetta er mat lögmanna er Fréttablaðið ræddi við.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti er stjórn félags sem yfirtökutilboð tekur til óheimilt að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á tilboðið, þar á meðal ákvarðanir um samninga sem falla ekki undir venjulega starfsemi félagsins, nema að fengnu samþykki hluthafafundar. Reglan gildir þar til niðurstöður tilboðsins hafa verið gerðar opinberar.

Helga Hlín Hákonardóttir, lögmaður og einn eigenda ráðgjafarfyrirtækisins Strategíu, segir ráðningar- og uppsagnarsamninga við forstjóra dæmi um samninga sem séu á forræði stjórnar og því sé vandséð að þeir falli undir venjulega starfsemi félags samkvæmt samþykktum þess.

„Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnar er að gera uppsagnar- og ráðningarsamning við forstjóra. Slíkir samningar fela í sér sérstök tilvik sem aðeins eru á færi stjórnar og því vandséð að þeir geti fallið undir venjubundna starfsemi fyrirtækis,“ segir Helga.

Hluthafar HB Granda hafa frest fram til klukkan fimm í dag til þess að taka afstöðu til tilboðs Brims, sem keypti í apríl 34 prósenta hlut í útgerðinni. Þegar hafa hluthafar sem eiga alls 90,5 prósenta hlut sagst ekki ætla að ganga að tilboðinu.

Lögmenn sem Fréttablaðið ræddi við segja það álitamál hvort ákvarðanir stjórnar HB Granda um að segja Vilhjálmi upp og ráða Guðmund, sem teknar voru á fundi hennar í síðustu viku, fari í bága við lög. Bent er á að allar ákvarðanir „sem geta haft áhrif á yfirtökutilboð“, líkt og það er orðað í lögum, séu óheimilar. Enginn greinarmunur sé gerður á því hvort ákvarðanirnar geti haft lítil eða mikil áhrif á tilboðið.

Í tilboðsyfirliti Brims, sem var birt í byrjun mánaðarins, er sérstaklega tekið fram að félagið hafi ekki áform um að breyta starfsmannahaldi HB Granda.

Fjármálaeftirlitið segist ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Rannveig Rist sagði sig sem kunnugt er úr stjórn HB Granda í fyrrakvöld vegna ósættis um uppsögn Vilhjálms. Hún og stjórnarmaðurinn Anna G. Sverrisdóttir lögðust gegn uppsögninni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Helga Hlín nefnir að umræddu lagaákvæði sé ætlað að koma í veg fyrir að veigamiklar ákvarðanir séu teknar á vettvangi stjórnar á meðan óvissuástand varir. Fara þurfi „afar varlega“ í að taka óafturkræfar ákvarðanir á meðan yfirtökutilboðið er enn í gildi.