Meirihluti skráðra félaga í Kauphöllinni hafði lækkað í verði þegar markaðurinn lokaði í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,88 prósent en alls hefur hún lækkað um 2,5 prósent frá byrjun mánaðarins.

Viðmælendur Fréttablaðsins á fjármálamarkaði segja að rekja lækkunina í dag, og lækkanir síðustu daga, meðal annars til óvissu um áhrifin af því að Íslandi fari á gráan lista FATF.

Icelandair lækkaði um rúm 3,4 prósent en í dag var greint frá því að Norwegian Air og JetBlue Airways myndu hefja samstarf um flug yfir Atlantshafið. Það felur í sér að viðskiptavinir geti bókað tengiflug með báðum flugfélögum á bókunarsíðum þeirra beggja. Þannig verði auðveldara að ferðast yfir hafið með lágum tilkostnaði.

TM og Sýn lækkuðu um tæp 2,2 prósent, VÍS um 1,4 prósent, og bæði Skeljungur og Kvika banki um 1,1 prósent. Þá hækkaði ávöxtunarkrafa á lengri ríkisskuldabréf um 9 punkta.