Fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair er litað af óvissu um þróun flugmarkaðarins á næstu misserum. Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir að erlendis hafi verið umræða um viðskiptaferðalög í vetur, það er hvort ferðir á vegum fyrirtækja, til dæmis vegna fundarhalda, leggist niður.

„Þetta getur haft töluverða þýðingu fyrir flugfélög vegna þess að viðskiptafarþegar skila félögunum meiri framlegð en aðrir farþegar. Ég hef ekki séð niðurbrot fyrir Icelandair en almennt hafa alþjóðlegir greinendur metið að viðskiptafarþegar séu 10 prósent af fjölda farþega en standi undir 40 prósentum af tekjum,“ segir Kristrún.

Í þessu samhengi bendir hún á að samkvæmt Reykjavíkurborg var hlutfall ráðstefnugesta í fyrra 7,5 prósent allra ferðamanna eða um 150 þúsund manns. Stefnan hafi verið að hækka þetta hlutfall einmitt vegna þess að ráðstefnugestir og viðskiptafarþegar almennt eyða mun meira en meðalferðamenn.

„Þessir gestir koma líka síður á háannatíma. Rafrænt ráðstefnuhald og nær algjört stopp í viðskiptaferðum vegna COVID setur því talsvert strik í reikninginn hvað þennan ferðamannastraum varðar,“ segir Kristrún. Nýlegar greiningar bendi til þess að það geti orðið verulegur samdráttur í þessum hluta starfsemi flugfélaga.

„Greinendur hafa gengið svo langt að halda því fram að markaðurinn fyrir viðskiptafarþega verði aldrei samur og að 10-15 prósent af markaðnum tapist fyrir fullt og allt út af breyttum venjum.“

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.

Icelandair Group hefur undirritað samninga við alla kröfuhafa og náð endanlegu samkomulagi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing. Samkomulagið felur í sér að Icelandair mun taka við samtals 12 Boeing Max-vélum en ekki 16 eins og upphaflega pöntunin frá 2016 gerði ráð fyrir. Þar með á Icelandair eftir að fá afhentar 6 vélar og verða þær afhentar á öðrum fjórðungi 2021 og fyrsta fjórðungi 2022.

Auk þess felur samkomulagið í sér bætur frá Boeing, umfram það sem áður hafði verið samið um, vegna tjónsins sem hlaust vegna kyrrsetningar Max-vélanna. Bæturnar ná yfir „verulegan hluta“ af tjóninu að sögn Icelandair en félagið hafði áður metið tjónið á 135 milljónir dala, jafnvirði 18,5 milljarða króna.

„Staða viðskiptavina Boeing er nokkuð sterk, enda vill Boeing frekar semja við þá, og viðhalda þannig góðum viðskiptasamböndum, heldur en að standa í málarekstri,“ segir Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður TravelCo og fyrrverandi forstjóri Icelandair Group. Spurður hvort hann telji að Icelandair hafi samið vel svarar Jón Karl að honum sýnist svo vera.

„Auðvitað liggja smáatriði samningsins ekki fyrir en ég bjóst alltaf frekar við því að Icelandair myndi ná góðum samningum við Boeing frekar en hitt. Maður treystir fólkinu sem vinnur að því að meta það. Ég geri ráð fyrir að niðurstaðan hafi verið hagstæð. Þeir semja um fækkun á flugvélum, fá bætur fyrir tjónið og lækka greiðslubyrðina.“

Jón Karl Ólafsson.
Fréttablaðið/Stefán

Samningar við kröfuhafa taka mið af því að laga afborganir að væntu sjóðsstreymi frá rekstri. Eru þeir háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð. Eru viðræður við stjórnvöld um útfærslu á slíkri lánalínu, í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann, langt á veg komnar.

„Stjórnendur Icelandair hafa sjálfir sagt að óháð greiðslum til lánardrottna verði róðurinn mjög þungur. Það er mikill kostnaður sem felst í því að halda rekstrinum gangandi, sérstaklega á meðan leiðakerfið er enn háð mikilli óvissu. Þó samningar hafi náðst við helstu lánardrottna verður greiðslubyrði af eldri skuldbindingum örugglega einhver áfram,“ segir Jón Karl.

„Að því leyti er aðkoma fjárfesta og væntanlega ríkisins óumflýjanleg, eins og hefur gerst í öðrum ríkjum.“

Í ViðskiptaMogganum í gær var haft eftir heimildum að Icelandair hefði þreifað á stjórnvöldum um ríkisábyrgð upp að 18-20 milljörðum króna. „Að mínu mati er þetta ekki ofmat. Það er örugglega þörf á þessum fjármunum auk aukins hlutafjár miðað við óvissuna sem framundan er,“ segir Jón Karl.

Hagsveiflan besta forspárgildið

Spurð um horfur á flugmarkaði segir Kristrún hjá Kviku banka að besta forspárgildið fyrir flugeftirspurn og ferðalög sé hagsveiflan. Vissulega hafi verið langtímaleitni í átt að auknum ferðalögum en til skemmri tíma litið hafi hagsveiflan mikil áhrif. Hún segir að ferðalög teljst ekki til nauðsynlegra útgjalda og sé því einn af þeim liðum sem líða fyrir skertar tekjur fólks í niðursveiflu.

„Ef heimshagkerfið nær ekki að taka við sér í tæka tíð verða eftirköstin mikil.“

„Þetta ástand hefur varað lengur en margir bjuggust upphaflega við og ef heimshagkerfið nær ekki að taka við sér í tæka tíð verða eftirköstin mikil. Hættan er sú að þó að bóluefni komist í framleiðslu fljótlega og við náum utan um veiruna þá sitji mörg fyrirtæki eftir með sárt ennið eftir margra mánaða tekjutap sem skapar gat á efnahagsreikningi þeirra,“ segir Kristrún.

Slík þróun geti haft töluverð áhrif á vinnumarkaði og eftirspurn í lengri tíma en sjálf kórónaveiran.

„Það sem átti að vera skammtímaáfall er því smám saman að þróast yfir í lengri tíma vandamál sem gæti haft veruleg áhrif á eftirspurn í heimshagkerfinu til lengri tíma litið. Hvernig íslensk ferðaþjónusta nær að grípa þann hluta markaðarins sem tekur síðar við sér, er svo önnur spurning enda hlutfall hennar í ferðamennsku á heimsvísu lágt,“ segir Kristrún.