Eins og gengur þegar pólitísk óvissa ríkir hefur Brexit haft ýmsar afleiðingar. Þannig hefur sterlingspundið verið veikt allt frá þjóðar­atkvæðagreiðslunni 2016. Sama gildir um hlutabréfamarkaðinn sem hefur verið lægra verðlagður en markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum samkvæmt nánast öllum mælikvörðum.

Áhrifin má sjá til skamms tíma, eins og af skarpri styrkingu pundsins og hækkun hlutabréfavísitölu í síðustu viku þegar ýmislegt benti til að samningar myndu nást um Brexit. Þau má einnig sjá til lengri tíma, líkt og af þeirri staðreynd að alþjóðlegir sjóðir hafa í auknum mæli tekið yfir skráð bresk félög. Ekki bara eru þau seld á lægri margföldurum en sambærileg félög annars staðar, heldur gerir veikt pund þau einnig að ódýrari yfirtökukosti en í eðlilegu árferði. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í tæknigeiranum, þar sem bandarískir sjóðir hafa tekið yfir hvert breska tæknifyrirtækið á fætur öðru. Auðvitað er þetta ekki annað en markaðshagkerfið í hnotskurn. Fjárfestar munu alltaf sjá tækifæri í eignum sem eru undirverðlagðar.

Hér á landi er ekkert Brexit en staðreyndin er þó sú að hlutabréfamarkaðurinn hefur allt of lengi verið afskiptur. Auðvelt er að færa rök fyrir því að allnokkur skráð félög séu undirverðlögð. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, bæði til skamms tíma vegna efnahags­aðstæðna en einnig til lengri tíma og þá mögulega af kerfisástæðum.

Á Íslandi hefur það löngum verið vandamál að ekki er nægjanleg velta með hlutabréf, en lágmarksviðskipti þurfa auðvitað að eiga sér stað og á eðlilegum forsendum til að verðmyndun sé virk. Á síðustu árum hafa einkafjárfestar verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli, til dæmis í tryggingafélögunum, fjarskiptafyrirtækjunum, olíufélögunum og smásölunni. Markaðsvirði sumra þessara félaga er ekki slíkt að ekki mega hugsa sér að afskrá þau og vinna þannig úr undirliggjandi verðmætum.

Hættan við örsmáan hlutabréfamarkað er einfaldlega sú að verðmyndun verði ekki nægjanlega virk og að hlutabréfaverð endurspegli ekki undirliggjandi verðmæti. Við slíkar aðstæður þyrfti ekki að koma á óvart ef félög hyrfu af markaði eitt af öðru, og fjárfestingakostir sjóða og stofnana með.