Við­reisn kynnti í dag til­lögur sínar sem miða að því að fjár­festingar ríkis­sjóðs verði auknar um alls 60 milljarða króna á næstu þremur árum til að vega upp á móti þeim efna­hags­sam­drætti sem nú er hafinn.

Í til­lögunum er lagt til að fjár­festingarnar verði fjár­magnaðar með sölu ríkisins á þriðjungs­hlut sínum í Ís­lands­banka auk þess sem fjár­festingum fyrir árin 2023 og 2024 verði flýtt.

Í til­kynningu frá flokknum segir að fjár­festingar hins opin­bera hafi verið langt undir meðal­tali allar götur frá hruni. Þau segja mikil­vægt að nýta þann efna­hags­slaka sem nú er að myndast.

Við­reisn varar þannig ein­dregið við því að dregið verði úr fjár­festingar­á­formum eins og ríkis­stjórnin boðar.

Meirihluti fari í að hraða vegaframkvæmdum

Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar, og Þor­steinn Víg­lunds­son, vara­for­maður, kynntu til­lögurnar á fundi í höfuð­stöðvum flokksins í Ár­múla. Í til­lögunum er lagt til að meiri­hluti fjár­festinganna fari í að hraða vega­fram­kvæmdum sem tengjast fram­kvæmdum vegna Borgar­línunnar og ljúka tvö­földum bæði Reykja­nes­brautar og Suður­lands­vegar.

Þá var lagt til að aukið verði við ó­vissu­svig­rúm fjár­mála­stefnunnar verði aukið úr 0,4 prósent í 1,5 prósent til að skapa nauð­syn­legt svig­rúm, og að henni verði skipt milli ríkis og sveitar­fé­laga. Þau segja það ó­raun­hæft að ætla ríkinu svig­rúm án þess að byggðum landsins sé veitt sam­bæri­legt and­rými.

Bæði Þor­steinn og Þor­gerður í­trekuðu á fundinum að ríkis­stjórnin kysi nú, enn og aftur, að hundsa við­vörunar­orð sér­fræðinga. Þau segja það ó­á­byrgt af ríkis­stjórninni að sýna ekki meiri var­kárni.

Þau segja vandann sem ríkis­stjórnin stendur frammi fyrir hafi verið fyrir­sjáan­legur og að hægt hefði verið að koma í veg fyrir hann. Þau segja breytingar­til­lögu ríkis­stjórnarinnar við fjár­mála­stefnuna byggja á ó­raun­hæfum for­sendum um hag­þróun næstu ára, líkt og upp­haf­leg fjár­mála­stefna.

Þar hafi verið van­á­ætluð fækkun ferða­manna, ekki tekið til­lit til hægari vaxtar einka­neyslu og í­búða­fjár­festinga og að ný­lega gengis­breytingar krónunnar hafi verið van­metnar.

„Ó­var­færni“ geti leitt til dýpri efnahagslægðar

Þau telja að slík „ó­var­færni“ geti leitt til efna­hags­lægðar sem verði dýpri en væntingar geri ráð fyrir og að ríkis­stjórnin hafi því ekki gefið sér svig­rúm til að bregðast við henni.

„Af­leiðingar þess geti orðið aukið at­vinnu­leysi, versnandi staða þjóðar­búsins og lægri kaup­máttur heimilanna. Allt skerði þetta lífs­kjör þjóðarinnar,“ segir í til­kynningu frá Við­reisn.

Þau sögðu enn fremur að fjöl­mörg verk­efni hafi setið á hakanum í kjöl­far síðasta efna­hags­hruns og að fjár­festingar­stig ríkisins hafi ekki enn náð meðal­tali í sögu­legu sam­hengi. Þau segja að ekki sé út­lit fyrir að það breytist á næstunni þar sem stjórn­völd hafa til­kynnt að þau ætli að draga úr eða fresta fram­kvæmdum. Þau segja aukna hættu á að sveitar­fé­lög þurfi að gera slíkt hið sama.

Hægt er að horfa á upp­töku af kynningu þeirra Þor­gerðar og Þor­steins hér að neðan.