Á Bloomberg fréttaveitunni er haft eftir Jan Hatzius, hagfræðingi Goldman Sachs, að hann telji hættuna á samdrætti hafa aukist mjög og einnig líkur á að hann raungerist fyrr en seinna. „Við spáum nú minni vexti inn í framtíðina og höfum vaxandi áhyggjur af því að Seðlabankinn sjái sig knúinn til að bregðast harkalega við mikilli verðbólgu og verðbólguvæntingum neytenda hækki orkuverð áfram skarpt.“

Bandaríski seðlabankinn hefur reynt að bregðast við verðhækkunum á nauðsynjavörum og í síðustu viku varð mesta stýrivaxtahækkun frá 1994. Hagfræðingar Goldman Sachs óttast að vaxtahækkanir seðlabankans pog samdráttur geti orðið til þess að auka mjög atvinnuleysi í landinu og hafa lækkað hagvaxtarspá sína fyrir komandi ársfjórðunga.