Það að hægt sé að stunda verðbréfaviðskipti í Bandaríkjunum án þess að greiða þóknanir og fjárfesta í afleiðum með auðveldum hætti hefur gert það verkum að almenningur gerir sér ef til vill ekki grein fyrir áhættunni sem fylgir. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Áhugi almennings í Bandaríkjunum á hlutabréfaviðskiptum hefur aukist verulega: 32 milljarðar Bandaríkjadala leituðu á hlutabréfamarkaðinn í liðinni viku samanborið við 3 milljarða Bandaríkjadala á sama tíma fyrir tveimur árum.

Lágir vextir og mikið lausafé í umferð

Samkomutakmarkanir til að stemma stigu við COVID-19 heimsfaraldrinum og aðgerðir stjórnvalda hafa ýtt undir áhuga almennings á hlutabréfakaupum. „Lágar þóknanir, Seðlabankinn hefur aukið lausafé í umferð gríðarlega, mikill fjöldi fólks situr heima í sóttkví og margir með umtalsvert sparifé á milli handanna og jafnvel fengið ávísanir frá hinu opinbera til að auka umsvif í hagkerfinu. Allt þetta skapar óvenjulegar aðstæður,“ segir Joseph Amato, aðalfjárfestingastjóri hlutabréfa hjá Neuberger Berman.

Þeir sem áttu rétt á slíkum ávísunum fengu 1.200 dali í vor og 600 dali í desember. Sérfræðingar á markaði telja að hluti af fénu hafi farið í kaup á hlutabréfum.

Viðskipti með afleiður, sem eru oftast áhættusamari en bein kaup á hlutabréfum með reiðufé, hefur aukist á undanförnum tólf mánuðum samhliða því að auðveldara er fyrir almenning að festa kaup á slíkum fjármálaafurðum.

Óttast að missa af lestinni

„Nú getur almenningur tekið lán fyrir hlutabréfakaupum og keypt afleiðingur. Áður fyrr var það bara í boði fyrir fjárfestingasjóði og stofnanafjárfesta,“ segir Patrick Krizan, hagfræðingur há Allianz.

„Þegar fólk telur að allir séu að gera eitthvað óttast það að missa af lestinni. En slíkt gerir það einnig að verkum að fólk missir tilfinningu fyrir þeirri áhættu sem fylgir viðskiptunum,“ bætir hann við.

David Kelleher, framkvæmdastjóri hagsmunasamtakanna Better Markets, segir að notendaviðmót ýmissa verðbréfasala sé svo einfalt að það geri það að verkum að fólk átti sig ekki á áhættunni sem fylgi því að fjárfesta.

Robert Smith yfirmaður hjá eignastýringu Barclays segir að nú þurfi einungis að smella nokkrum sinnum á snjallsíma til að kaupa hlutabréf. Fyrir tíu árum hafi til að mynda þurft að fylla út eyðublöð til að opna reikning.

„Fjárfestar hafa meiri tíma og aukið fé umleikis sem skapar þá tilfinningu að um ókeypis peninga sé að ræða. Fólk hugsar: Hverju hef ég að tapa? Það er auðvelt að fjárfesta en það er líka afar auðvelt að tapa á því,“ segir hann.

„Stýrivextir eru núll og magnbundin íhlutun gera það að verkum að fólk gerir ýmislegt við fé sitt sem það myndi ekki gera annars.“

„Stýrivextir eru núll og magnbundin íhlutun gera það að verkum að fólk gerir ýmislegt við fé sitt sem það myndi ekki gera annars,“ segir Eric Stein, aðalfjárfestingastjóri hjá Eaton Vance.

Þekkt er að hópur venjulegs fólks tók að fjárfesta í GameStop með þeim afleiðingum að hlutabréfin hækkuðu úr öllu valdi til þess að refsa vogunarsjóðum sem höfðu veðjað á að hlutabréf verslananna myndu lækka . GameStop selur tölvuleiki í hefðbundnum verslunum.