Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segist óttast að efnahagslægðin sem gengur yfir landið verði enn dýpri ef ekki verði dregið enn frekar úr aðhaldi peningastefnunnar og horft til þess að endurskoða eiginfjárkröfur og sértæka skattlagningu bankanna. Aðhaldið hafi aukist umtalsvert frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í liðnum mánuði.

„Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að herða aðhald í miðjum efnahagsslaka og sérstaklega ekki nú þegar mikil óvissa ríkir um stöðu hagkerfisins,“ segir hún í samtali við Markaðinn.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, bendir aðspurður á að verðbólguvæntingar hafi á flesta mælikvarða verið að þokast niður á við. Það þýði þá að óbreyttum skammtímavöxtum að raunvextir hafi þokast upp og peningalegt aðhald aukist.

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur næst saman í byrjun febrúar. Hún lækkaði stýrivexti bankans um 1,5 prósentustig á liðnu ári – og eru þeir nú í sögulegu lágmarki í þremur prósentum, en engu að síður þokuðust raunvextir lítið niður á sama tíma. Þeir hafa heldur hækkað nokkuð að undanförnu samhliða hratt lækkandi verðbólguvæntingum.

Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort hagvaxtarspár séu of bjartsýnar fyrir árið 2020

„Miðað við stöðu hagkerfisins,“ útskýrir Ásdís, „er fátt sem bendir til annars en að fram undan sé áframhaldandi aðlögun. Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort hagvaxtarspár séu of bjartsýnar fyrir árið 2020. Sérstaklega þegar litið er til þess að atvinnuleysi er enn að aukast og Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að atvinnuleysi muni jafnvel þokast í átt að fimm prósentum nú í upphafi árs.

Í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur síðustu vikurnar væri illskiljanlegt ef Seðlabankinn tæki ekki til baka þá hækkun sem verið hefur á vaxtaaðhaldi bankans frá seinasta vaxtaákvörðunarfundi,“ nefnir hún.

Jafnframt hafi ný stjórntæki Seðlabankans ráðandi áhrif á útlánagetu bankanna. Eiginfjárkröfur bankanna hafi verið hertar og sérstakur sveiflujöfnunarauki, sem leggst ofan á þær, muni hækka um 0,25 prósentustig í febrúar. Þá greiði bankarnir auk þess sérstakan bankaskatt og aðra sérskatta sem leggist þungt á rekstur þeirra.

„Allir þessir þættir hafa ekki aðeins þau áhrif að samkeppnisstaða þeirra á útlánamarkaði er verulega skökk heldur koma þeir einnig niður á afkomu bankanna,“ segir Ásdís.

„Sökum þessa hefur aðgengi að fjármagni úr bankakerfinu til dæmis snarversnað sem endurspeglast meðal annars í því að útlánsvextir eru hærri en ella. Bankarnir eru einfaldlega að bregðast við erfiðu rekstrarumhverfi. Þessi breyting sem er að eiga sér stað á útlánamarkaði bitnar mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa ekki annað val en að taka lán í bankakerfinu,“ bætir hún við.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Líkur á frekari vaxtalækkun

Jón Bjarki telur talsverðar líkur á frekari vaxtalækkun á þessu ári. Einnig telur hann líklegt að slakað verði á öðrum fjármálalegum skilyrðum þannig að auðveldara verði að miðla lágum stýrivöxtum yfir í almenn lánskjör og lengri vexti.

„Þetta er farið að hanga meira saman,“ nefnir hann. „Það eru vitaskuld ákveðin vandamál sem fylgja lágum vöxtum sem fara að raungerast eftir því sem stýrivextirnir lækka meira. Það er ekki enn þá farið að bíta mikið. En nú um stundir eru óbundnir innlánsvextir, eins og á debetreikningum, til dæmis komnir við núllið og ef við ætlum ekki beinlínis að fara að rukka fólk og fyrirtæki fyrir að geyma fé hjá bönkum þá tekur þetta í vaxtamuninn ef útlánsvextir eiga að lækka eitthvað að ráði.

Á sama tíma hefur arðsemi bankanna verið að minnka og forsvarsmenn þeirra benda á að þessi blanda af arðsemiskröfu sem er gerð til þeirra, vaxtastiginu og öðrum kvöðum sem hvíla á þeim auðveldi þeim ekki að miðla frekari lækkun stýrivaxta inn í lægri útlánsvexti,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Ljósmynd/Íslandsbanki