„Ég er bara ekki alveg búinn að ákveða það,“ segir Óttar Guðmundsson spurður hvort hann hafi í hyggju að þiggja boð Skúla Mogensen um að heimsækja sjóböðin í Hvammsvík.

Í Bakþönkum Óttars í Fréttablaðinu 13. ágúst gagnrýndi hann aðkomu þriggja ráðherra að opnun sjóbaðanna hjá Skúla í júlí og setti spurningarmerki við að ábyrgðarmenn ríkissjóðs tækju þátt í slíkum fögnuði.

Skúli svaraði pistlinum með aðsendri grein í Fréttablaðinu 16. ágúst þar sem hann taldi Óttar fara með rangt mál. Greinina endaði Skúli á að bjóða Óttari í heimsókn í Hvammsvíkina. Óttar hefur ekki í hyggju að svara pistli Skúla.

„Ætlunin var alls ekki að gagnrýna Skúla eitthvað sérstaklega, heldur miklu frekar ráðherrana sem virðist vera alveg sama um kjósendur. Það var það sem þetta gekk út á,“ segir hann. „Ég sé enga ástæðu til að fara í neitt skítkast.“