Útlit er fyrir að hlutafjárútboð Íslandsbanka, sem lauk í gær, hafi verið vel heppnað á flesta mælikvarða. Ríkið losar um eignarhald sitt í fjármálakerfinu með skynsamlegum hætti og þrátt fyrir nokkuð hagstætt útboðsgengi fyrir kaupendur – sem var meðal annars ætlað að stuðla að kraftmikilli þátttöku almennings í útboðinu – fær ríkissjóður gott verð fyrir sinn hlut.

Vert er að staldra við og rifja upp úrtölurnar sem lituðu umræðu um söluferlið í byrjun þessa árs og fjölmiðlar gerðu hátt undir höfði. Málflutningur þingmanna Samfylkingarinnar var á þá leið að aðstæður fyrir sölu á banka væru óheppilegar og ráðgjafar stéttarfélaga sögðu að óvissa um virði lánasafns Íslandsbanka myndi laða óprúttna fjármagnseigendur að bankanum.

Málflutningurinn gaf til kynna að stjórnvöld vildu knýja í gegn róttækar breytingar á fjármálakerfinu í þágu fjármagnseigenda. Því fer fjarri enda er sala á 35 prósenta hlut í öðrum af tveimur ríkisbönkunum varfærið skref í átt að heilbrigðara fjármálakerfi. Ljóst var, þá sem nú, að fullyrðingarnar héldu ekki vatni.

Enn fleira var týnt til. Í greinargerð frá sérfræðingahópi verkalýðshreyfingarinnar sem var birt í byrjun árs var mælt gegn bankasölunni, meðal annars vegna þess að skort hefði samfélagslega umræðu um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Auk þess þyrfti að byggja upp meira traust á bankakerfinu og eftirlitsstofnunum áður en Íslandsbanki yrði seldur. Í örvæntingu var fálmað eftir hverju því sem gæti gert sölu Íslandsbanka tortryggilega.

Sala bankans er eitt af nokkrum nýlegum dæmum sem sýna að framtakssemi í atvinnulífinu á undir högg að sækja. Hún kallar fram neikvætt og ósjálfrátt viðbragð eins og slegið sé á hnéskeljarnar. Gildir þá einu hvort framtakið snúi að atvinnuuppbyggingu eða dreifingu eignarhalds í mikilvægum atvinnugreinum.

Sem kunnugt er þrýsti stjórn VR á Lífeyrissjóð verzlunarmanna að sniðganga hlutafjárútboð Iceland­air og formaður stéttarfélagsins hvatti einnig til sniðgöngu á hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar. Forseti ASÍ fann stofnun flugfélagsins Play allt til foráttu og formaður Eflingar lýsti áhyggjum sínum af því að endurreisn ferðaþjónustunnar leiddi til „gullgrafaraæðis“.

Framferði viðkomandi verkalýðshreyfinga og þingmanna endurspeglar ekki heilbrigt mótvægi við atvinnurekendur heldur óþol fyrir efnahagslegum framförum.