Ég þarf að játa svolítið. Ég les aldrei yfirlitin sem ég fæ inn um lúguna frá lífeyrissjóðnum mínum. Ég hendi þeim alltaf rakleiðis í tunnuna, án þess svo mikið að opna umslagið. Afsakið mig, en þetta hef ég gert í mörg ár.

Ég les blöð og auglýsingabæklinga en þessar skeytasendingar um áunnin lífeyrisréttindi hafa aldrei höfðað neitt sérstaklega til mín yfir morgunbollanum.Ástæðan er sennilega sú að það er hægt að fletta þessu öllu upp með einföldum hætti á netinu. Þá sjaldan hún heltekur mann, lífeyrisþráin.

Ég væri með móral yfir þessu ef ég væri ekki nokkuð viss um að þetta á við um fleiri en mig. Nú þegar internetið er orðið nokkuð fast í sessi. Mig grunar raunar að þessi bréf séu með öllu óþörf og rati nær undantekningarlaust ólesin í endurvinnslutunnur. Svo óvinsæl eru þau á eldhúsborðum landsmanna.

Þetta er auðvitað ákveðin tímaskekkja og lífeyrissjóðirnir vita alveg að það er óþarfi að senda yfirlit inn á heimili sjóðfélaga fyrir á annað hundrað milljónir árlega. En þeir gera þetta vegna þess að þeim ber lagaleg skylda til þess.

Já, þið lásuð rétt. Yfirlit frá lífeyrissjóðum þurfa að berast sjóðfélögum á pappír samkvæmt upplýsingaskyldu. Árið 2022. Nokkuð merkilegt.

Auðvitað stendur til að breyta þessu. Það sjá allir að þetta er úrelt fyrirkomulag. Það er meira að segja búið að skrifa frumvarpið.

Svo sjálfsagt þykir stóra pappírsmálið í þinginu að því var kippt út úr öðru umdeildara lífeyrisfrumvarpi. Svo hægt væri keyra það í gegn hratt og vel fyrir þinglok. Í anda stafrænnar byltingar. Þótt fyrr hefði verið.

En svo gerðist dálítið skrítið. Einhverra hluta vegna gufaði málið upp í meðförum nefndarinnar á lokametrunum. Ásamt öðru stærra, en álíka óumdeildu, máli sem varðar heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendri mynt.

Auðvitað skilur maður að það geti ýmislegt gerst í atinu rétt fyrir þinglok. Það er þá sem einföld mál sofna eða frestast.

Það sem er hins vegar svo merkilegt í þessu tilviki er að hitt lífeyrisfrumvarpið – sem var talið frekar umdeilt – það flaug í gegn. Forsvarsfólki lífeyrissjóða til mikillar furðu.

Svona geta nú lokametrar þings verið skrítnir. Auðvitað má hafa gaman af svona furðuverkum við Austurvöll. Ef ekki væri fyrir þá staðreynd að af þessu hlýst kostnaður. Sem eigendur lífeyrissjóðanna bera. Illu heilli.

En sem sagt, pappírsmálið bíður nú afgreiðslu inn í næsta vetur. Sennilega fram að næstu þinglokum. Í millitíðinni getur maður huggað sig við að einhver makar áfram krókinn á útgáfu og dreifingu bréfa sem enginn les, en allir borga fyrir.