Ostabúðinni við Skólavörðustíg hefur verið lokað í óákveðinn tíma. Þetta kemur fram á miða sem hangir nú á glugga verslunarinnar. Óviðráðanlegar aðstæður virðast hafa ráðið lokuninni ef marka má miðann en engin tilkynning hefur borist frá eigendum fyrirtækisins.

Galið rekstrarumhverfi

Jóhann Jónsson, matreiðslumaður og eigandi Ostabúðarinnar, sagði í samtali við Veitingageirann að búðinni hefði verið lokað fyrir fullt og allt. Reksrarumhverfið var að sögn Jóhanns alveg galið og þrátt fyrir mikla aðsókn hafi þurft að fylla í fleiri sæti.

Starfsmönnum Ostabúðarinnar var tilkynnt um lokunina í morgun en alls störfuðu 15 manns hjá fyrirtækinu, sem þurfa nú að leita á ný mið.

Tveir áratugir af ostum

Ostabúðin er rótgróin sælkeraverslun á Skólavörðustígnum sem bauð upp á eitt breiðasta úrval íslenskra og erlendra osta á landinu. Landsmenn hafa um árabil geta valið úr úrvali osta í ostaborðinu á staðnum og síðustu 15 ár hefur einnig verið hægt að tilla sér niður á veitingastaðnum, síðast í gær var hægt að gæða sér á rétti dagsins. Stutt er síðan Ostabúðin stækkaði við sig og opnaði stærri veitingastað við hlið búðarinnar.

Ekki náðist í eigendur verlunarinnar við gerð fréttarinnar en Thelma Kristín Þrastardóttir sem á átta prósent hlut í fyrirtækinu vildi ekki tjá sig um málið. Óljóst er því hvenær búðin mun opna aftur og hvað olli skyndilegri lokun.

Hrina lokanna í miðbænum

Staðurinn bætist nú í hóp veitingastaða sem lokað hefur verið nýlega í miðbænum. Nú síðast lokaði stöðunum Dill, Systir, og Mikkeller & friends samdægurs en þau fylgdu fast á eftir ítalska staðnum Essensia sem lokaði í síðasta mánuði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Miðinn sem hangir nú í glugganum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari