Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur hefur á rúmlega 20 árum yfirtekið um 60 fyrirtæki. Félagið hefur vaxið að meðaltali um 18 prósent á ári með blöndu af innri og ytri vexti. Þetta kemur fram í viðtali við Svein Sölvason, sem hefur verið fjármálastjóri Össurar frá árinu 2013 en tekur við starfi forstjóra af Jóni Sigurðssyni í apríl, sem sýnt var í sjónvarpsþættinum Markaðurinn á Hringbraut í gærkvöldi.

Markaðsvirði Össurar, sem er skráð í kauphöllina í Danmörku, er um 340 milljarðar króna. Starfsmenn eru um fjögur þúsund í 30 löndum en um 500 eru hér á landi. Sveinn hefur á orði að segja megi að hjartað í starfseminni sé á Íslandi. Hér fari fram þróunarvinna og framleiðsla sem sé lykilþáttur í velgengni fyrirtækisins.

„Fyrirtækjakaup hafa verið stór þáttur í okkar sögu,“ segir Sveinn en Össur var skráð í Kauphöll Íslands árið 1999 og færði sig alfarið yfir á danska markaðinn við lok árs 2017. Fyrstu árin í yfirtökum fóru í að samþætta stoðtækjageirann, því næst var annarri stoð slegið undir reksturinn með kaupum á fyrirtækjum sem þróa spelkur og stuðningsvörur en á síðustu árum hefur Össur keypt fyrirtæki sem þjónusta notendur á vörum frá Össuri. „Við erum í allri virðiskeðjunni,“ segir Sveinn. „Nú erum við í beinum samskiptum við þá sem borga fyrir vöruna og það er mikilvægt.“

Sveinn segir að fyrirtækin sem Össur hafi keypt á allra síðustu árum séu frá því að hafa 20-30 starfsmenn og velta 100-200 milljónum og upp í fyrirtæki með 2-300 starfsmenn og hátt í fjóra til fimm milljarða í tekjur.

Yfirleitt greiðir hið opinbera eða tryggingafélög fyrir vörur Össurar. „Þetta eru dýrar lausnir,“ segir Sveinn, „sem skapa mikið virði.“ Hann segir að einstaklingar sem nýta vörurnar geti hreyft sig betur og minni líkur séu á að þeir detti eða meiðist. Vörurnar séu því hagkvæmari til lengri tíma litið.

Sveinn segir að Covid-19 hafi hægt á vexti Össurar. Notendur vara frá fyrirtækinu séu oft eldra fólk með aðra undirliggjandi sjúkdóma sem hafi verið hikandi við að sækja þjónustu. Árið 2020 hafi verið fyrsta árið í sögu fyrirtækisins sem það státaði ekki af innri vexti heldur drógust tekjur saman um tíu prósent. Áætlanir geri þó ráð fyrir tíu prósenta vexti í ár. „Við erum að koma ágætlega til baka,“ segir hann og nefnir að áhersla hafi verið lögð á að halda framþróun félagsins áfram í Covid-19. Sótt hafi verið inn á nýja markaði og haldið áfram að fjárfesta í nýsköpun og þróun.

Sveinn segir að varðandi framtíðarmöguleika Össurar sé horft til þriggja þátta: Í fyrsta lagi að fjárfesta í nýrri tækni með það fyrir augum að búa til vörur sem einfalda líf þeirra sem hafi misst útlimi. „Við sjáum mikil tækifæri í því,“ segir hann.

Í öðru lagi að sækja á nýja markaði. Nú sé meiri kaupmáttur og gerðar meiri kröfur á mörkuðum þar sem heilbrigðiskerfið hafi ekki verið gott. Össur hafi fjárfest ríkulega í starfsemi í Kína, Suðaustur-Asíu og Austur-Evrópu. „Það er mikilvægt fyrir okkur og stór þáttur í okkar vexti á undanförnum árum. Við höfum metnaðarfull markmið hvað þetta varðar,“ segir hann. Í þriðja lagi að Össur hafi verið að færa sig framar í virðiskeðjuna með kaupum á fyrirtækjum sem þjónusta notendur vara frá fyrirtækinu.

Hið opinbera setji sér háleit markmið

Ísland er auðlindadrifið hagkerfi og því útsett fyrir ýmiss konar áföllum sem geta haft áhrif á tekjustofna, að sögn Sveins. Hann bendir á að stór hluti af verðmætasköpun hagkerfisins stafi af orkuframleiðslu, fiskútflutningi og ferðaþjónustu. Þess vegna sé mikilvægt að byggja umgjörð sem styðji við alþjóðageirann en undir hann falla hugvitsdrifin fyrirtæki sem treysti ekki á náttúruauðlindir.

Sveinn segir að margt hafi áunnist á undanförnum árum, stjórnvöld hafi staðið sig vel og glæsileg fyrirtæki hafi skotið upp kollinum en hann hefði viljað sjá enn meiri metnað hjá ríkinu og nefnir í því samhengi að setja markmið um að hátt hlutfall af verðmætasköpun landsins komi frá alþjóðageiranum. „Senda skýr skilaboð út í allt kerfið,“ segir hann og nefnir að með þeim hætti verði allar litlu ákvarðanirnar sem þurfi að taka tengdar þessu markmiði. Hin Norðurlöndin hafi staðið sig vel hvað það varðar.