Bandarísk yfirvöld hafa gefið Össuri leyfi til að kaupa stoðtækjafyrirtækið College Park Industries en samkomulag um kaup var gert í júlí á síðasta ári. Til að standast skilyrði samkeppnisyfirvalda þurfti að selja framleiðslu af tegund rafolnboga út úr College Park.

Höfuðstöðvar College Park eru í Detroit borg í Bandaríkjunum og þar starfa 140 manns. Árið 2018 seldi fyrirtækið vörur fyrir 22 milljónir dollara, eða rúma þrjá milljarða króna.

Samkvæmt tilkynningu frá Össuri á þeim tíma var tilgangurinn með kaupunum að styrkja fyrirtækið á sviði handastoðtækja og hjá hópum sem eru lítt líkamlega virkir. En einnig að vörumerki College Park yrði áfram haldið og það styrkt bæði á bandarískum og alþjóðlegum mörkuðum.

Nú eru hins vegar aðstæður aðrar en þegar samkomulagið var gert og hefur því verið ákveðið að setja ekki ákveðna dagsetningu á hvenær kaupin ganga endanlega í gegn. Í yfirlýsingu frá Össuri segir að aðilar samningsins hafi ákveðið að vera sveigjanlegir en þetta myndi klárast á næstu þremur mánuðum.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en greint var frá því á síðasta ári að kaupin hefðu ekki áhrif á afkomuspá þess árs. –