Ferðaþjónustan er kvik atvinnugrein sem stækkar og minnkar mjög hratt eftir aðstæðum. Fyrirtæki hafa verið í hagræðingarfasa síðustu mánuði og von er á fleiri uppsögnum. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Á annað þúsund misstu vinnuna í gær eftir að flugfélagið WOW air hætti rekstri.

Vinnumálastofnun(VMST) barst nær 400 hundruð símtöl í gær, en það eru meira en helmingi fleiri símtöl en stofnuninni bárust á fimmtudaginn í síðustu viku. Starfsmenn WOW air hafa verið hvattir til þess að sækja um atvinnuleysisbætur sem fyrst, en sérstök viðbragðsáætlun hefur verið virkjuð hjá stofnuninni.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, segir ferðaþjónustufyrirtækin hafa verið í hagræðingarfasa síðustu vikur og mánuði, en verkföll VR og Eflingar hafa helst bitnað á fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Aðspurður segir hann SA ekki hafa borist neinar handbærar upplýsingar um frekari uppsagnir í dag, en á sjötta tug var sagt upp hjá Kynnisferðum í gær í kjölfar fregna af WOW air.

„Við eigum því miður von á frekari uppsögnum, annað hvort núna um mánaðamótin eða um þau næstu. Það er ljóst að þessi tíðindi í gær bæta ekki þá stöðu og munu bæta gráu ofan á svart,“ segir Jóhannes í samtali við Fréttablaðið.

Sumarið er handan við hornið. Aðspurður hvort hann telji þann hóp sem hefur nú þegar bókað sér gistingu hér á landi og flugmiða með WOW muni finna sér aðrar leiðir til landsins eða snúa sér annað. „Það er hvort tveggja í stöðunni, hluti af þessum ferðamönnum eru búnir að bóka sér gistingu hér á landi og jafnvel afþreyingu.

Eins og við þekkjum bara sjálf, þegar við bókum okkur ferðir, það er búið að gera ákveðin plön sem kosta peninga og margir hverjir munu leita leiða til að geta uppfyllt fríið sitt en síðan eru auðvitað margir sem hætta bara við og fara bara annað,“ segir hann og bendir á að hluti af bókununum komi í gegnum erlenda ferðaheildsala og þeir heildsalar séu þá að leita nú að töluverðum fjölda sæta sem passa inn í sína pakka og það sé óvíst að þeir finni það. „Það er líka mjög mikilvægt að hugsa um í þessu samhengi að þó að WOW hafi verið lággjalda flugfélag þá komu þau með mjög mikið af verðmætum ferðamönnum til landsins alveg eins og með öðrum flugfélögum,“ segir Jóhannes sem segir erfitt að meta skaðann eins og stendur.

„Það er mjög erfitt að meta þetta akkúrat núna en við erum strax farin að heyra af því að óskir um afbókanir séu farnar að berast og mörg fyrirtæki standa í því núna að svara fyrirspurnum um hvort það sé hægt að afbóka.“

Segir Jóhannes að þó stór hluti bókana séu óendurgreiðanleg reyni mörg fyrirtæki að sýna ákveðinn sveigjanleika í ljósi aðstæðna. Í grunninn séu það skilmálar um afbókanir sem gilda og ekki hafi öll fyrirtæki tök á sveigjanleika. „Mér hefur sýnst það að það sé mikil jákvæðni hjá fyrirtækjum á íslandi að sýna þessu skilning en síðan er bara mjög misjafnt hverjar aðstæður fyrirtækjanna eru mörg þeirra eru bara ekki í aðstæðum til þess að taka á sig mikinn skell,“ segir hann og bætir við að lokum: „Ferðaþjónustan er mjög kvik atvinnugrein þannig hún stækkar og minnkar mjög hratt með aðstæðum. Ef að aðstæður verða erfiðari þá er ferðaþjónustan mjög fljót að bregðast við einfaldlega því hún er svo mannaflafrek. Það hefur mikil áhrif á mannaflsþörfina í greininni hvernig aðstæðurnar eru, bæði rekstraraðstæðurnar og þróun á farþegafjölda“