Óskaskrín hefur nú þegar þrefalda jólasöluna sína á milli ára þótt desember sé enn eftir. Allt útlit er fyrir að heildartekjur ársins verði talsvert meiri en í fyrra en þær jukust um 80 prósent milli ára í fyrra. Fyrirtækið selur skrín sem innihalda margvíslega upplifun, út að borða, dekur og afþreyingu sem dæmi.

„Það er mikil aukning í sölu á óskaskrínum fyrir jólin. Fyrirtæki eru núna að nota þennan valkost í stað hefðbundinna jólahlaðborða sem verða ekki haldin í ár sökum ástandsins og gefa þá Gourmet Óskaskrín á hvern starfsmann. Um er að ræða 3-5 rétta út að borða fyrir tvo,“ segir Hrönn Bjarnadóttir, sölu- og markaðsstjóri Óskaskrín.

Hrönn segir að mörg starfsmannafélög séu að nýta sjóðina sína í að gefa Óskaskrín þar sem engar utanlandsferðir eða árshátíðir hafa verið og allir starfsmannasjóðir fullir. Eins vilja fyrirtæki/starfsmannafélög launa starfsfólki sínu fyrir þrautseigju og dugnað síðustu misseri þegar allir hafa þurft að vinna við erfiðar, breyttar og krefjandi aðstæður.

„Langvinsælast fyrir jólin í starfsmannagjöfum eru fyrirtækjapakkarnir okkar sem eru í fjórum verðflokkum og þar er búið að blanda saman fjölda ólíkra upplifana, út að borða, dekur, afþreying og fleira sem á að henta vel fyrir fjölbreyttan starfsmannahóp af báðum kynjum og á öllum aldri. Við bjóðum fyrirtækjum uppá að sérhanna og sérmerkja Óskaskrínið með lit og merki fyrirtækisins og eins er hægt að bæta við persónulegri kveðju og svo er stofnað sérstakt vefsvæði fyrir þau kort sem fyrirtækið gefur sem starfsmenn geta farið inn á og séð hvað er í boði,“ segir Hrönn.

Hún segir mikla aukningu í sölu til einstaklinga en margir eru farnir að gefa sínum ástvinum frekar upplifanir sem skilja eftir sig skemmtilegar minningar í stað hluta sem flestir eiga of mikið af. „Þetta er til dæmis mjög góð gjöf til að gefa þeim sem eiga allt. Ég held að flestir lendi í því um jólin að þurfa að gefa eina svoleiðis gjöf og þá er þetta mjög góð lausn. Allt frá árdegisverði og upp í þyrluflug,“ segir hún.